Aconcagua

Á morgun legg ég af stað til Argentínu, ásamt 3 ferðafélögum mínum, þar sem við munum leggja til atlögu við fjallið Aconcagua, tæplega 7.000 metra.

Allar upplýsingar um ferðina, skipulag og dagsetningar má finna á sérstakri blogg síðu sem við höfum sett upp.  Við munum reyna að setja þarna inn jafnóðum upplýsingar um hvernig ferðinni miðar, en ekki alveg ljóst hvernig okkur muni ganga að koma frá okkur upplýsingunum.

En slóðin er: 

http://aconcagua.blog.is/blog/aconcagua/


Íþróttamaður ársins 2008 - undarlegar leikreglur!

Búið er að velja íþróttamann ársins 2008 og var það, eins og við var búist, Ólafur Stefánsson, fyrirliði íslenska handboltaliðsins sem gerði garðinn frægan í Kína.

Með fullri virðingu fyrir Ólafi og öðrum þeim atvinnumönnum sem eftst tróna í þessari keppni - gjarnan þeir sömu ár eftir ár - þá hefur sá maður gleymst sem að mínu mati átti þennan titil skilið um fram aðra.  Það er bakarinn og afreksmaðurinn Benedikt Hjartarson sem varð fyrstur Íslendinga til að vinna það mikla afrek að synda yfir Ermarsund, en margir hafa spreytt sig á því áður, án þess að takast.

Að baki slíku afreki liggur þrotlaust vinna, æfingar og undirbúningur að ekki sé talað um þá hæfileika, metnað og þrautseygju sem slíkur afreksmaður býr yfir.  Að hægt sé að velja íþróttamann ársins án þess einu sinni að nefna Benedikt er mér gjörsamlega óskiljanlegt.  Fróðlegt væri að heyra hvað liggur að baki þessari ákvörðun og hvaða skýringu íþróttafréttamenn geta gefið á þessu. 


Flottir tónleikar

Fórum á tónleika í Fríkirkjunni í gærkvöld hjá Svavari Knúti og Árstíðunum.  Í stuttu máli:  alveg rosalega flott hjá báðum.  Að mestu frábær frumsamin lög og textar og flutningurinn mjög góður, bæði söngurinn og hljóðfæraleikurinn. 

Svavar Knútur syngur og spilar einn, bæði á píanó og gítar og gerir það mjög vel, bæði lög og textar sérlega fallegt og áheyrilegt.  Árstíðirnar er tveir gítarar, einn baritóngítar og selló og þeir syngja allir og spila listavel, mjög mikið raddað og fallegar útsetningar.

Þetta hljómaði mjög vel í Fríkirkjunni, græjurnar ekki of hátt stilltar og stemmingin frábær.  Sem betur fer mátti heyra að þessir menn ætla að halda áfram á þessari braut og ætla sér stóra hluti í framtíðinni.

Gleðilegt nýtt ár og farið nú varlega í kvöld.


Pennaleti

Sólrisuganga Ísafoldar 2008 002Ég hef ekki bloggað mikið undanfarið né lesið skrif bloggvina minna og biðst hér með forláts á því.  Ástæða er þó ekki tóm leti, heldur er um að kenna stífum fjallgönguæfingum, því í byrjun janúar er förinni heitið aftur til Argentínu þar sem lagt verður til atlögu við fjallið Aconcagua, sem er tæplega 7000 metra hátt.

Við erum fjögur sem leggjum í hann 4. janúar, fljúgum gegnum NY til Buenos Aires og það beint til Mendoza, þar sem gangan hefst og áformað er að koma heim aftur 23. janúar.

Í morgun var ég í mjög skemmtilegri göngu í boði ferðaskrifstofunnar Ísafoldar, sem ég vinn nokkuð fyrir, en hún er í eigu þeirra sómahjóna Jóns Baldurs Þorbjörnssonar og Auðbjargar Bergsveinsdóttur.  Við gengum í skóglendi í hrauninu sunnan við Hafnarfjörð, í átt til Krísuvíkur.  Þarna er mikill skógur sem ræktaður hefur verið upp af einkaaðilum sem fengu þessu landi úthlutað fyrir um 40 árum síðan og er landið alls um 40 hektarar.  Á bakaleið var komið við á nýlegri landfyllingu Hafnarfjarðarhafnar,  þar sem vel sást út á Faxaflóann og þar, ekki langt frá landi, sáum við hnúfubaka að leik.

Morgungöndunni lauk síðan með hressingu, bjór og snafs, í höfustöðvum Ísafoldar í Suðurhrauni í Hafnarfirði.

En í gærkvöld var börnum og tengdabörnum boðið upp á skötu og viðeigandi veigar hér í Sóltúninu. Ég bjó til skötustöppu að vestfirskum sið, eins og ég hef gert undanfarna áratugi og fór það allt vel í maga, lifur og nýru.  Þá er við hæfi að rifja upp þessar vísur sem ég setti saman fyrir nokkrum árum:

Þorlákur Helgi þetta sinn

þrána skötu blessar.

Ógnarkraftinn aftur finn

eyðast líkams vessar.

 

Óskir hafa allar ræst

enn af gömlum vana.

Skatan römm af kyngi kæst

kitlar braðlaukana.

 

Enginn maður kemst í kör

sem kæsta skötu etur,

ef að næst í morkinn mör

mitt um dimman vetur.

 

Veidd í álum Atlantshafs,

er það mögnuð þrenna

ef við bætist öl og snafs

sem oní vambir renna.

 

Ýmist fleira á minn disk

enn vor herra setur:

Hákarl, smér og harðan fisk

hann framkallað getur.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

!

 

 

 


Ein er upp til fjalla

Gekk á Esjuna í morgun, eins og svo oft áður.  Hef aldrei séð eins mikið af rjúpu í fjallinu, það er bókstaflega allt krökkt af henni.  Við aðstæður eins og voru í dag var hún um allt, bæði niðri í skóginum og allt upp undir klettabeltin.  

Þó að rjúpan sé friðuð hér í borgarlandinu, varð ég vitni að árás og morði, þar sem lífið var murkað úr einni.  Ég sá álengdar hvar fálki var að ráðast á hana en eitthvað truflaðist hann þegar ég nálgaðist.  Rjúpan slapp og náði að fljúga nokkurn spöl og settist svo, sennilega dösuð eða særð.  En fálkinn lét mig ekki trufla sig, þó ég væri kominn býsna nálægt, gerði aðra atlögu og greip svo rjúpuna í klærnar og flaug í burtu með hana.  Tyllti sér aðeins eftir stutt flug og hagræddi bráðinni en hélt svo áfram fluginu og hvarf mér sjónum.  

Verði honum að góðu.  En því miður náði ég ekki taka mynd, þetta skeði hratt og myndavélin var í bakpokanum. 


Bensínverðið

Það er þó eitthvað til að gleðjast yfir, bensínverðið hér er með því lægsta í Evrópu!  Í flestum vestur-Evrópulöndum er verð á lítra EUR 1.20 til 1.30 og breytist ótrúlega hægt, þó svo að heimsmarkaðsverð á olíu hafi farið hríðlækkandi undanfarið.  Þetta er á gengi dagsins 230 til 240 krónu á lítra svo verðið hér er um 30% lægra! 

 Í Bandaríkjunum hefur verðið lækkað mjög ört, er núna víðast hvar um USD 1.80 pr gallon (3.8 lítrar) eða um 70 krónur á lítra og hefur lækkað um allt að helming frá því sem mest var.


Morgunleikfimi

Tilkynnt hefur verið um harkalegan niðurskurð hjá RÚV og ekkert við því að segja á þessum síðustu og verstu tímum.   Leit lauslega yfir fréttina en sá ekki í fjótu bragði neitt um að laun útvarpsstjóra og annarra æðstu stjórnenda yrðu lækkuð.  En það hlýtur að vera einn liður í sparnaðinu, vil ekki trúa öðru.

Held ég hafi heyrt rétt í morgunútvarpinu þegar verið var að fjalla um niðurskurðinn að eitt af því sem ætti að leggja af væri morgunleikfimin, sem verið hefur fastur liður kl. að verða tíu á morgnana í marga áratugi.  Fólk af minni kynslóð man t.d. þegar Valdimar Örnólfsson sá um þáttinn, auk margra ágætra stjórnenda sem eftir honum komu. 

Þetta er ráðstöfun sem ég ekki skil því það er fjöldinn allur af eldra fólki sem stundar þessa líkamsrækt reglulega og hefur gaman og gagn af því.  Og það er algjör óþarfi að hætta þessum útsendingum því það eru örugglega til upptökur af þessum þáttum langt aftur í tímann og allt í lagi að senda út gamlar upptökur, þetta er efni sem ekki eldist og er í fullu gildi þó gömul sé.  Með því móti væri hægt að halda þessu áfram, án nokkurs kostnaðar fyrir RÚV. 


Fimbulvetur

Nú er norðan garður með stórhríð á norðanverðu landinu.  Skyldi þetta verða snjóþungur vetur, líkt og s.l. vetur?  Gæti verið að þeir sem hafa verið að spá kólnandi veðurfari hafi rétt fyrir sér? 

Í norrænni goðafræði er getið um Fimbulvetur, veturinn sem kemur á undan Ragnarökum.  Hann er í raun þrír vetur sem koma hver á fætur öðrum og ekkert sumar kemur á milli þeirra.  Á þeim tíma geysa styrjaldir og í fimbulvetri eyðist allt líf á jörðu.  Af mönnum eru það aðeins Líf og Lífþrasir sem lifa af Ragnarök og frá þeim er mannkyn í nýjum heimi komið.

En það er víst óþarfi að mála skrattann á vegginn.  Ástandið er nógu slæmt og þörf fyrir jákvæða strauma.  Þetta eru ekki Ragnarök - við vinnum okkur út úr þessu. 


Ljósmengun

earthlights02_dmsp_big  Myndin er frá NASA og sýnir jörðina okkar að næturlagi.

 

Núna, þegar byrjað er að setja upp jólaljósin, finnst mér rétt að benda á það sem kallað hefur verið ljósmengun (e. light pollution), en með því er átt við þau áhrif sem mikil og óhófleg lýsing hefur á umhverfið.  Þessi mengun veldur því að stjörnuhimininn virkar mjög daufur, ljós frá tungli sést varla og mjög erfitt verður að sjá fyrirbæri eins og norðurljósin.

 

Ég hef verið að fara með útlendinga í s.k. norðurljósaferðir, en þá verður að fara á svæði þar sem ekki er ljósmengun, auk þess sem að sjálfsögðu þarf að sjást til himins.  Þetta eru yfirleitt mjög skemmtilegar ferðir, jafnvel þó ekki sjáist mikið til norðurljósa, því fyrir flesta er það merkileg og óvenjuleg reynsla að horfa upp í stjörnubjart himinhvolfið, án truflunar frá ljósadýrð borgarinnar.  Reyndar er það svo að ljósmengun er mjög víða, t.d. frá þorpum og gróðurhúsahverfum og ekki auðvelt að finna svæði í nágrenni borgarinnar þar sem hennar gætir ekki.

 

Alþjjóðleg Samtök hafa verið stofnuð, sem berjast á móti ljósmengun, The International Dark Sky Asscociation (www.darksky.org) og er fróðlegt að kynna sér þeirra sjónarmið og ýmislegt sem hægt er að gera til að draga úr ljósmengun.  T. d. er orðið algengt að útilýsing sé með þeim hætti að ljós lýsa beint upp í loftið, sem veldur óþarfa ljósmengun, auk þess að vera sóun á orku.

 

Jólaljósin eru allra góðra gjalda verð, lýsa upp skammdegið og geta degið úr svartsýni og vetrarkvíða, sem ekki veitir af á þessum síðustu og verstu tímum.  En höfum í huga að hóf er best í þeim efnum og sóun og orkubruðl er ekki til bóta.  Að ekki sé talað um þá dýrð sem við okkur blasir á heiðskýrum vetrarhimni.


Sundlaugarferð

Það voru snarpar umræður í pottinum í morgun.  “Auðvitað eiga þessir hálfvitar sem eru búnir að koma okkur í þessa stöðu að segja af sér, rjúfa þing og kjósa” sagði belgmikill maður í sundskýlu sem rétt náði að hylja hálfan bossann.  “Ég er ekki sammála því” sagði annar og miklu grennri, með miklum þunga. “Þeir eru búnir að setja saman björgunaráætlun og nú verða þeir að fá vinnufrið og klára dæmið”  Fleiri blönduðu sér í umræðuna og sýndist sitt hverjum. 

 

Mikið skelfing er erfitt að mynda sér skoðun á fólki sem er nakið eða bara í sundskýlu.  Það er engin leið að sjá hvort viðkomandi er uppstrílaður íhaldsmaður eða tötralegur hálfkommi.  Ef maður bara vissi hvort hann klæðist brotabuxum og bindi eða er bindislaus í gallabuxum er strax komið eitthvað til að byggja á.  Sá með bindið hlýtur að vera hægri sinnaður lögfræðingur eða bankastarfsmaður og hinn trúlega sósíalisti, kennari, iðnaðarmaður eða atvinnulaus, nema hann sé kannski allt þetta.

 

En umræðan hélt áfram. “Krónan er ónýt og ekkert upp á hana að púkka.  Ekkert annað að gera en koma sér í Evrópusambandið sem allra fyrst og taka upp evruna” sagði miðaldra kona með sundhettu og engin leið að átta sig á hennar stöðu í lífinu, gæti verið bara húsmóðir, hjúkka eða kennari.  Eldri maður gerði athugasemd við þetta og spurði:  “Hvað verður þá um fiskimiðin okkar og hvernig eiga bændur að lifa þegar við fáum óheftan innflutning landbúnaðarvara frá Evrópu?”

 

Ég ákvað að blanda mér ekki í umræðurnar, fór og synti mína venjulegu vegalengd og reyndi að hugsa ekki um pólitík eða efnahagsmál.  Náði að hreinsa hugann og hugsaði um hvað vatnið væri dásamlega mjúkt og blautt og volgt; hvað það væri notalegt að hreyfa sig í vatninu og einbeitti mér svo að stílnum, ef það skyldi einhver vera að fylgjast með mér.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband