Lima, Peru

Við komum hingað með flugi frá Cuzco á mánudaginn og höfum verið að skoða borgina, sem hefur komið okkur skemmtilega á óvart.  Mikil borg með um 9 milljón íbúum, fjölbreytt mannlíf, umferðahnútar, flottar gamlar byggingar, falleg torg og frábær Kyrrahafsströndin með sjávarnið, brettaköppum og svifdrekum.  Ríkidæmi og fátækt, með miklum öfgum sem blasa víða við.

Lima, Perú 001Höfum líka farið á nokkur söfn og gallerí.  Larco Herrera museum er mjög fjölbreytt og flott, með miklu safni af gömlum gull og silfur munum frá Inca tímum og miklu eldra, allt upp í 2000 ára.  Svo er mikið safn af keramik munum og vefnaði og ekki má gleyma sérstöku erótísku safni, aðallega keramik munir sem sýnir fólk í allskonar erótískum stellingum og athöfnum en jafnframt eru munirnir nytjahlutir.

Sagan hefur komið okkur nokkuð á óvart hér, því nú rennur upp fyrir okkur að tími Inkanna var tiltölulega stuttur, ca. 1200 til 1530 en fyrir voru hér ýmsir merkilegir þjóðflokkar með fjölbreytta menningu og byggðu Inkarnir á þeim grunni og þekkingu sem fyrir var.  Inkarnir voru herskáir og lögðu undir sig marga aðra þjóðflokka þegar þeir byggðu upp sitt stóra ríki og litu margir þeirra þjóðflokka á Spánverjana sem frelsandi engla þegar þeir birtust á 16. öld - en hafa nú væntanlega margir verið fljótir að breyta því áliti.Lima, Perú 002

Gallerí og listabúðir eru margar og höfum við notið frábærrar leiðsagnar Matthildar Halldórsdóttur (í ELM) sem hér hefur búið lengi og er öllum hnútum kunnug.  Hún hefur líka kynnt okkur Límíska gastrónómíu, sem er á heimsmælikvarða.

Og nú er komið að ferðalokum, höldum heim í kvöld í gegnum NY og komum heim á föstudagsmorgun.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Velkomin heim.

Hlakka til að heyra meira af ykkar vörum.

Guðrún E

Guðrún Eyjólfsdóttir (IP-tala skráð) 13.11.2008 kl. 20:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband