Ein er upp til fjalla

Gekk á Esjuna í morgun, eins og svo oft áður.  Hef aldrei séð eins mikið af rjúpu í fjallinu, það er bókstaflega allt krökkt af henni.  Við aðstæður eins og voru í dag var hún um allt, bæði niðri í skóginum og allt upp undir klettabeltin.  

Þó að rjúpan sé friðuð hér í borgarlandinu, varð ég vitni að árás og morði, þar sem lífið var murkað úr einni.  Ég sá álengdar hvar fálki var að ráðast á hana en eitthvað truflaðist hann þegar ég nálgaðist.  Rjúpan slapp og náði að fljúga nokkurn spöl og settist svo, sennilega dösuð eða særð.  En fálkinn lét mig ekki trufla sig, þó ég væri kominn býsna nálægt, gerði aðra atlögu og greip svo rjúpuna í klærnar og flaug í burtu með hana.  Tyllti sér aðeins eftir stutt flug og hagræddi bráðinni en hélt svo áfram fluginu og hvarf mér sjónum.  

Verði honum að góðu.  En því miður náði ég ekki taka mynd, þetta skeði hratt og myndavélin var í bakpokanum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fjóla Björnsdóttir

Blessaður Bragi.

Er búin að vera að lesa alveg yndislega bók í dag.  Hún heitir "Lífsins tré" eftir Böðvar Guðmundsson.  Kom út hjá Máli og Menningu 1999.  Eins og þú kannski veist er þetta skáldsaga og fjallar um mannlíf á Islandi á seinni hluta 19. aldar á tímum einhverra mestu þjóðflutninga Íslandssögunar, þ.e. til Vesturheims.  Hún er afskaplega vel skrifuð og "greip mig"  frá fyrstu blaðsíðu.  Einnig er að finna nokkuð af munnmælasögum og þjóðlegum fróðleik. Langar að deila með þér eftirfarandi kafla frá bls. 9 í þessari bók.

"Halldóra amma mín og langamma þín sagði mér stundum sögur.  Ein þeirra var sagan um fálkann og rjúpuna.  Þau eru systkin í álögum vondrar stjúpmóður sem þoldi ekki börn mannsins síns af því að þau sefuðu hvort annars sorgir.  Því breytti hún þeim í fálka og rjúpu og langði á þau að rjúpan skyldi alltaf vera á flótta undan fálkanum og að fálkinn reyndi að bana rjúpunni hvenær sem færi gæfist.  Fálkinn er fugla fráastur og rjúpan er auðveld bráð.  Hann rennir sér eftir henni og slær hana til ólífs og sest með hana í klónum á stóran stein og rífur hana í sig.  En sem hann heggur hvössum goggi í hjarta hennar þekkir hann að það er systir hans, og þá bregður svo við að rödd hans, sem að jafnaði er ógnandi og djöfullegt veiðihlakk, breytist í sorglegan söng, fagran en svo tregafullan að nístir í gegnum merg og bein."

Bestu kveðjur

Fjóla.

Fjóla Björnsdóttir, 14.12.2008 kl. 01:25

2 Smámynd: Bragi Ragnarsson

Hæ Fjóla og bestu þakkir fyrir að rifja upp þessa frásögn.  Ég er sammála þér að þetta er mjög góð bók hjá Böðvari, en þær eru tvær um þetta sama efni, hin heitir Híbýli Vindanna og er það fyrri bókin, fyrst prentuð 1995 en Lífsins Tré var fyrst prentuð 1996.  Ef ég man rétt fannst mér sú fyrri jafnvel enn betri.

 Við höfum átt ágæta helgi hér, snjóföl yfir öllu og skammdegissólin gyllti fjöllin, þessi vetrarbirta er svo falleg og sérstök.  Var á Esjunni báða dagana, því nú er lokaspretturinn í æfingum áður en farið verður til Argentínu og tekist á við Aconcagúa í byrjun janúar.

 Vona að þið hafið það gott í Bolivíu og sendum ykkur bestu kveðjur.

Bragi Ragnarsson, 14.12.2008 kl. 18:05

3 identicon

Takk fyrir þessi skrif, Fjóla og Bragi.

Ljómandi góð færsla og athugasemdir.

Veraldarálfurinn (IP-tala skráð) 17.12.2008 kl. 10:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband