Bólivía

Komum til La Paz í Bólivíu í gærkvöld, eftir millilendingu í Santa Cruz, en þar tók á móti okkur íslensk kona sem býr í Bólivíu, Fjóla Björnsdóttir, sem tók að sér að vera leiðsögumaður okkar í La Paz í dag.  Fjóla hefur búið í La Paz í mörg ár en býr núna ásamt fjölskyldu sinni nálægt Santa Cruz, þar sem þau eiga landareign og eru með búskap.Dagurinn með Fjólu var mjög áhugaverður og var ómetanlegt að njóta hennar góðu leiðsagnar og innbyrða margvíslegan fróðleik um sögu lands og þjóðar og núverandi ástand í landinu.   Landið er mjög fjöldbreytt, alls um 1 milljón ferkílómetrar, regnskógar, háslétta og fjallgarður sem teygir sig upp í yfir 6000 metra.  Og þjóðin er að 2/3 indíánar og afkomendur þeirra, en 1/3 eru afkomendur evrópubúa, aðallega Spánverja.  Og forsetinn, Morales er af indíánaættum.  Landið er auðugt af ýmsum málmum, silfri og gulli, jarðgas finnst í miklu magni, hlutar landsins eru vel fallnir til búskapar og það er mjög áhugavert fyrir ferðamenn, bæði vegna fjölbreyttrar náttúru og áhugaverðrar sögu.En við vörðum deginum í að skoða La Paz og nágrenni en borgin er hæsta höfuðborg í heimi, í um 3.600 metra hæð og hlutar hennar teygja sig reyndar upp í yfir 4000 metra og þar er t.d. flugvöllurinn.  Landslagið er hrikalegt og fagurt, en hrjóstrugt og borgin mjög sérstæð, byggð í dal og fjallshlíðum.  Mjög lítill gróður er í og við borgina og mjög fá opin svæði.  Skipulag kaótískt og húsagerðir fjölbreyttar, allt frá glæsilegum byggingum í nýlendustíl til fátæklegra hreysa.  Mannlíf og manngerðir sömuleiðis mjög fjölbreyttar en mest ber á indíánum, dökkum og lágvöxnum og vegna þunna loftsins hafa þeir þróast þannig að brjóstkassinn er fyrirferðarmikill.   Klæðnaður yfirleitt efnismikill og litskrúðugur, konurnar með sérkennilega kúluhatta sem tyllt er á höfuðið og þær eru í miklum fellingarpilsum.  Íbúar eru milli 1.5 og 2 milljónir og fer ört fjölgandi en heildaríbúafjöldi landsins er um 9 milljónir.Miklar rústir frá Inkatímanum eru í nágrenni La Paz en fáir ferðamenn koma þangað og er það að mestu vegna þess að Perúmenn hafa verið duglegri að koma sínum rústum á framfæri og flestir fara þangað.  Og þangað er ferð okkar nú heitið.  Á morgun förum við til Copacabana og Ila del Sol, sem er eyja í Titicaca vatninu og síðan til Puno í Peru, þar sem við gistum aðra nótt.Meira seinna.   

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábært að fá að fylgjast með ...

Áhugaverð ferð. 

Veraldarálfurinn (IP-tala skráð) 3.11.2008 kl. 02:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband