30.1.2008 | 07:46
29.01.08
Í dag fór ég með kláfnum upp á hásléttuna Alpe di Siusi, paradís gönguskíðamanna. Hún er í tæplega 2000 metra hæð og yfirleitt ágætur snjór og lagðar göngubrautir út um allt, hægt að velja um ýmsar vegalengdir og hæðarmun. Ekki er mikið um skóga þarna uppi og stórkostlegt útsýnið óhindrað til allra átta. Hægt að láta sér detta i hug að hásléttan sé útkulnuð eldfjalla askja, umkringd fjallstindum sem gætu verið gígbarmar, svipað og við höfum heima, t.d. í Öskju eða Öræfajökli. En það er auðvitað ekki svo, Alparnir eru fellingafjöll sem hafa myndast þegar Ítalía var sjálfstætt rekbelti sem rak inn í meginland Evrópu og ýtti upp fjallgarðinum. Með sama hætti mynduðust Himalaya fjöllin, þegar Indland,sem verið hafði á reki út á Indlandshafinu, tók upp á því að sameinast meginlandi Asíu og ýtti í þeim atgangi upp fjallgarðinum, hæstu tindum jarðar og þar með Everest.Það voru margir skandinavar í göngubrautinni í dag, flestir þreytulegir eftir Marcialonga á sunnudaginn og reyndu að ná úr sér harðsperrunum eins og ég gekk ágætlega. Tók því rólega í dag, gekk eitthvað um 30 km enda veðrið svo frábært, sólskin og hiti, að það var erfitt að hreyfa sig.Ég elska ítalskan mat. Var að ljúka við kvöldmatinn, fjórréttað og salathlaðborð að auki. Frábær matreiðsla og hráefni fyrsta flokks. Fyrir þetta borga ég, nú á háannatíma, um IKR 7000 á dag: gott herbergi með svölum til suðurs, fínt morgunverðarhlaðborð og þennan himneska kvöldverð. Veit ekki hvernig þeir reikna þetta en verðið án kvöldverðar er kr. 6000 og kvöldverðurinn sem er optional - því verðlagður á 1000.- Til samanburðar eru þokkaleg hótel heima á landsbyggðinni á annatíma á ca. 10 12.000 eins manns herbergi plús kvöldmatur ca. 3.500. Sem sagt tvöfalt verð.Málefni sem vert er að skoða og ræða: Af hverju er skíðaganga ekki vinsælli og meira stunduð á Íslandi en raun ber vitni? Það eru miklu betri aðstæður til að stunda skíðagöngu heldur en svig í nágrenni Reykjavikur.Látum þetta duga í dag.BR
Athugasemdir
Sæll Bragi, jú ég er sú sem þú hittir í brautinni um daginn. Til hamingju með gönguna. Ég sé að þú varst á sömu slóðum og við í fyrra, við gistum í Bellamonte daginn fyrir gönguna. Við fengum reyndar ekki að ganga nema tæpa 60km vegna snjóleysis þannigi að við þurfum að fara aftur :).
Kv. Vala
hólmfríður vala (IP-tala skráð) 30.1.2008 kl. 10:18
Til hamingju með gönguna Bragi. Þú kemur með góðar hugmyndir heim til að gera skíðagönguna vinsælli. Bestu kveðjur og sjáumst í Vasagöngunni.
Þóroddur
Þóroddur F. (IP-tala skráð) 30.1.2008 kl. 21:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.