Margt býr í þokunni......

01.02.08Í fyrradag var þoka í fjöllunum og öðru hverju mjög lítið skyggni.  Það truflaði mig þó ekki á gönguskíðunum en óneitanlega saknaði maður sólar og útsýnis.  Í gærkvöld fór ég yfir til Selva, það er rúmlega hálftíma keyrsla, og hitti þau ágætu hjón Einar Sigfússon og Önnu, sem verið hafa fararstjórar í skíðaferðum ÚÚ hér árum saman.  Í þokunni í fyrradag fóru þau með hóp af íslendingum til Val di Fiemme og þar skeði það, þegar Anna var að reyna að forða árekstri við barn sem skyndilega birtist í þokunni, að henni hlekktist á og þríbraut axlarlið.  Þetta reyndist þó ekki verra en svo að beinin hanga saman í réttum stöðum og hún þarf ekki að fara í aðgerð og verður ekki sett í gips.  En þarf að hafa hægt um sig til aðbyrja með og getur t.d. ekki sinnt flutningum á fólki sem er að fara og koma næsta laugardag, þ.e. á morgun.  Það varð úr að ég tók að mér að hlaupa í skarðið og aðstoða Einar við „transferið“ en það er um 3 tíma keyrsla milli flugvallarins í Verona og Selva og fer allur dagurinn í þetta.  Það er mikill fjöldi íslendinga hér á þessum tíma, tvær vélar á vegum ÚÚ koma hingað á hverjum laugardegi og auk þess kemur fjöldi fólks eftir öðrum leiðum.  Margir eru í meira en eina viku og skipta gjarnan um svæði.  Svo er fjöldi fólks að skíða í Austurríki, Frakklandi, Sviss og Bandaríkjunum þannig að það eru þúsundir íslendinga sem fara í svona frábær frí á hverjum vetri.  Það hefur aðeins kólnað og í gær var sólskin og frábært veður, skv spánni á eitthvað að þykkna upp næstu daga og gæti snjóað.BR

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Bragi

Gaman að lesa pislana þína. Leitt með Önnu. Þau hjón Anna og Einar eru frábærir farastjórar. Við fjölskyldan höfum notið þjónustu þeirra og notalegar samverustundir í mörgum ferðum okkar til Selva undanfarin ár. Bið kærlega að heilsa þeim með von um skjótan bata hjá Önnu.  Hér heima eru ágætar aðstæður til skíðaiðkunar, fínt spor en mjög kalt og skefur fljótt í spor uppi á heiði.  Skíðamót um næstu helgi í Bláfjöllum.

Skarphéðinn P. Óskarsson (IP-tala skráð) 2.2.2008 kl. 16:52

2 Smámynd: Bragi Ragnarsson

Skila kveðjunni Skarphéðinn.  En þetta tekur tímann sinn hjá Önnu, aðalatriðið er að fá hana til að slappa af og leika sjúkling en það gengur illa!  Gangi ykkur vel um næstu helgi og bestu kveðjur til Magnúsar mágs og annarra göngufélaga.

BR

Bragi Ragnarsson, 3.2.2008 kl. 16:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband