3.2.2008 | 16:53
03.02.08
Í gærmorgun, laugardag, var talsverð snjókoma hér, en létti til þegar leið á daginn. Ég keyrði snemma yfir til Selva og var kominn þangað um kl. 8:30. Það er mikil umferð á þessum slóðum á laugardögum, það eru skiptidagar en flest hótelin selja vikudvöl, frá laugardegi til laugardags. Auk þess bætist við umferð fólks sem býr í nágrenninu og kemur hingað til að skreppa á skíði um helgar. En ég fór til Selva til að aðstoða Einar og Önnu með transferið, þ.e. að koma fólki frá Selva á flugvöllinn í Veróna og flytja svo nýja hópa hingað uppeftir. Það er um 2.5 klst akstur hvora leið, þegar engar tafir eru og ekkert er stoppað og gekk þetta allt vonum framar. Það voru tvær rútur, um 75 manns til Veróna en 4 rútur til baka, um 150 manns og þar sem við Einar vorum bara tveir þurftum við að stoppa á leiðinni til baka og skiptum þá um rútur, þannig að við náðum að tala við alla. Nú er farið að bjóða upp á að kaupa lyftukort í rútunum á leiðinni uppeftir og tekur sú afgreiðsla mikinn tíma og rétt svo að það hafist. En sú þjónusta er vel séð þar sem þá þarf fólk ekki að standa i biðröð á sunnudagsmorgni til að kaupa lyftukort. Þetta gekk nú allt þokkalega, við fórum af stað frá Selva upp úr kl. 9 og vorum komin til baka um kl. 8 um kvöldið. Ég borðaði svo með Einari og Önnu og svo var farið í uppgjör og bókhald og ég var ekki kominn heim til Seis am Schlern fyrr en um miðnætti.Það er mjög gaman að keyra héðan til Veróna. Leiðin liggur niður á hraðbrautina sem liggur um Brennerskarðið og síðan í suðurátt, niður Val Adige dalinn, en vegurinn liggur með fram Adige ánni sem við sjáum breytast úr læk í þokkalega á og síðan á hún eftir að verða að talsverðu fljóti, þar sem hún rennur svo samsíða Pó fljótinu til sjávar í Adríahafið og saman mynda þær hina frægu og frjósömu Pósléttu. Hrikalegt landslagið, þröng gil, snarbrattir hamraveggir, himinháir fjallstindar og frjósamir dalir eru endalaust augnakonfekt, þannig að engum þarf að leiðast á þessari leið. En það er ákveðinn skyldleiki með þessu landslagi og því íslenska, hvað skyldi það vera? Því verður svarað í næsta bloggi. Í dag, sunnudag, er svo frábært veður, logn og smávegis frost í fjallinu, fínt færi og nýfallinn snjór og sólin sýndi sig öðru hverju. Ég var búinn að frétta af manni hér sem kynni að vaxa og bera á gönguskíði og skildi ég skíðin eftir hjá honum á föstudaginn og fékk þau í morgun, áætlega unnin. Ég var kominn upp í fjall um kl. 10 og náði að ganga 50 km til kl. 16 og fékk mér þó gúllassúpu og stóran bjór í hádeginu en stóru bjórarnir hér eru ekki nema 0.4 ltr þannig að ekki kemur til greina að kaupa lítinn! BR
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.