8.2.2008 | 18:13
08.02.08 - flott dagsetning!
Enn einn dýrðardagur að kvöldi kominn. Við erum dottin inn í enn eitt háþrýstisvæðið og ekki ský á himni, smávegis frost í fjallinu og frábært færi.Hótelið sem ég er á er stofnað 1909. Myndir á veggjum sýna þróunina þessi 100 ár og alltaf hefur það verið í eigu sömu fjölskyldu. Þannig hefur túrisminn verið lengi að þróast og byggjast upp hér. Einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að eigendur skuldi bönkum ekki mikið, frekar að þeir eigi varasjóð til að mæta óvæntum áföllum. Og fjölskyldan vinnur við fyrirtækið, sá gamli er mjög sýnilegur, ætli hann sé ekki þriðji eða fjórði ættliður!Svo eru lítil hótel og gistiheimili upp um allar hlíðar og koppagrundir. Þegar grannt er skoðað eru þetta líka bændabýli sem virðast flest stunda kúabúskap í einhverjum mæli, auk þess sem hestar eru víðast hvar og eru þeir notaðir til að draga sleða sem frændur þeirra túrhestar sitja í og jafnframt er boðið upp á útreiðartúra allan ársins hring. Gaman að sjá hvað hestarnir eru duglegir í snjónum, ýmist einn eða tveir fyrir hverjum sleða og klingjandi bjöllur gera kunnugt hverjir eru þar á ferð. Eigum ótrúlega góða minningu sem aldrei gleymist frá svona sleðaferð fyrir mörgum árum, að kvöldi til í frosti og heiðskíru veðri, tunglskin og stjörnuhimininn ótrúlega tær og flottur. Skíðalyftur, strætórar og ýmis þjónusta fyrir skíðafólk er í höndum sveitarfélaga sem oft hafa tekið höndum saman um að byggja upp aðstöðu. Svæðið sem kallað er Dolomita Superski er talið það stærsta samfellda í heimi sem þjónað er með einu og sama lyftukortinu og býður upp á um 1200 km af skíðabrekkum og 400 lyftur. Veðurfar er með ólíkindum, yfir 300 sólardagar á ári og ef ekki snjóar þá er snjórinn bara búinn til. Svæðin eru opin skíðafólki frá því í byrjun desember til fyrri hluta apríl og eru engir fyrirvarar á því. Ég hef ekki séð það bregðast þessi 15 ár sem ég hef komið hingað, þrátt fyrir hlýnandi veðurfar, sem hefur reyndar skapað þeim svæðum erfiðleika sem eru lægra sett (í eiginlegri merkingu). Þetta hafa verið góðir 11 dagar hér, ég hef farið á gönguskiði í 10 daga og gengið samtals tæpa 500 km við frábærar aðstæður. Á morgun flyt ég yfir til Selva og sæki Jónínu, Stínu og Trausta á flugvöllunn í Brescia. Við tekur vika á svigskíðum.BR
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.