28.4.2008 | 12:18
Þjóðarsjóður
Á aðalfundi Landsbankans í s.l. viku kom Björgólfur Guðmundsson fram með hugmynd um að stofna Þjóðarsjóð, til að styrkja efnahagslífið og sem hægt væri að grípa til þegar óvænt áföll dynja yfir.
Við fyrstu sýn lítur þetta út fyrir að vera ágæt hugmynd, enda hefur almennt verið tekið vel í hana, jafnvel af æðstu ráðamönnum.
En ég sé ekki betur en þetta sé bæði arfavitlaus og undarleg hugmynd. Hugmynd sem kemur fram eftir mesta eyðslufyllirí í sögu þjóðarinnar. Þegar komið er að skuldadögum eftir að einstaklingar og fyrirtæki eru búin að lifa um efni fram í langan tíma og hafa fjármagnað eyðsluna og útþennsluna með ódýrum lánum og fyrirhyggjuleysi.
Hvaðan eiga peningarnir að koma? Jú, þeir eiga að koma með skattlagningu, bæði á atvinnulífið og almenning. Sérstaklega hefur verið nefnt auðlindagjald, en hvað þýðir það? Auðvitað er það bara skattlagning, hvernig sem á það er litið. Auðlindagjald á útgerðina er skattur á útgerð og fiskvinnslu, auðlindagjald t.d. á jarðhita og fallvötn er skattur á orkufyrirtækin, skattur sem fyrirtæki og almenningur greiðir þegar upp er staðið.
Og hvernig á svo að nota peningana og úthluta úr þessum sjóði? Það verða auðvitað pólitíkusar og embættismenn sem það munu gera með allri þeirri hættu á mismunun, spillingu og sóun sem því getur fylgt. Aðgerð af sama toga var framkvæmd í kringum 1990 þegar skuldum útgerðar og fiskvinnslu var breytt í ríkstryggð skuldabréf, aðgerð sem að miklu leyti var sóun á stórum upphæðum af skattpeningum landsmanna.
Ekki get ég séð þörfina fyrir svona sjóð og tel að Ríkissjóður og Seðlabanki eigi vel að geta stýrt sínum málum þannig að undirstöður fjármálakerfisins séu nægilega traustar. Þó að Ríkissjóður hafi vissulega notað góðærið til að greiða upp sínar skuldir hefði hann getað gert miklu betur ef meira aðhalds hefði verið gætt og góðærið notað til að byggja upp sjóði. Og það sama má segja um Seðlabanka, nú hefði hann betur átt drjúgan gjaldeyrissjóð.
Það er undarlegt að þessi hugmynd skuli sett fram af einum ríkasta manni þjóðarinnar og einum öflugasta forsvarsmanni einkaframtaks og einkavæðingar. Er ekki bara verið að skapa möguleika á að velta taprekstri yfir á það opinbera, eftir að búið er að einkavæða gróðann?
Og svo er sérlega skondið að sjá viðbrögðin við þessari hugmynd. Mogginn og aðrir fjölmiðlar innan fyrirtækjaveldis Björgólfs taka vel í hana en Fréttablaðið hefur eitt efasemdir.
Athugasemdir
Sumir velja bæði axlabönd og belti.
Heidi Strand, 30.4.2008 kl. 09:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.