Keppnisíþróttir og hetjudýrkun

Í okkar markaðsvædda þjóðfélagi er mikil áhersla lögð á frammistöðu einstaklingsins og menn hvattir til að rækta og nota þá hæfileika sem þeir hafa fengið í vöggugjöf til að skara fram úr og ná árangri í lífinu.  Framabrautin reynist svo oft þyrnum stráð og margir ná árangri með því að olnboga sig áfram, ryðjast fram fyrir og traðka á öðrum.

 

Innræting í þessa veru byrjar snemma, krakkarnir eru hvött til að standa sig vel í skólanum og þeim sem standa sig vel er hampað og þeir verðlaunaðir með ýmsum hætti.  Og þau eru hvött til að taka þátt í ýmsum íþróttum, sem yfirleitt byggjast á einhverkonar keppni, jafnvel þó þau hafi hvorki til þess hæfileika eða áhuga.

 

Það er hið besta mál að hvetja krakka til að hreyfa sig, stunda útiveru og lifa heilsusamlegu líferni.  En ég held að áherslan sem lögð er á hvers konar hóp- og  keppnisíþróttir sé allt of mikil og oft á tíðum beinlínis skaðleg.  Hvað verður um allan þann fjölda sem ekki nær árangri eða kemst í fremstu röð?  Krakka sem hafa hvorki andlega eða líkamlega hæfileika til ná árangri eða skara fram úr?   Þeim líður illa, eru vansæl og fá á tilfinninguna að þau séu misheppnuð eða eitthvað sé að þeim, þau falla ekki inn í hópinn, er oft strítt og lenda jafnvel í einelti.  Þau reyna síðan að komast hjá að mæta, hvort sem um er að ræða íþróttatíma í skólanum eða aðrar íþróttir, reyna að fá sjúkraleyfi eða hreinlega skrópa.  Og fá þá oftar en ekki ímugust á hverskonar hreyfingu og íþróttum sem oft mótar svo líf þeirra eftir það.

 

Það sem þarf að gera er að bjóða krökkum upp á miklu fjölbreyttari hreyfingu eða útiveru, þar sem áhersla væri lögð á að finna út hvað hentar hverjum einstakling og vekur áhuga hans.  Sem dæmi má nefna gönguferðir tengdar ýmis konar náttúrskoðun og ratleikjum, fjallgöngum og útilegum, einstaklingsmiðaða tækjaþjálfun, sund, lyftingar og líkamsmótun og alhliða líkamsrækt sem samanstendur af nokkrum mismunandi þáttum.  Þetta má svo tengja fræðslu um næringu og samspil næringar og hreyfingar og hvernig hver einstaklingur getur komið sér upp kerfi sem hentar honum og vekur áhuga.  Það þarf að móta og innræta, byrja strax í barnaskóla og í raun halda áfram því sem þegar er gert á leikskólum, þar sem krakkarnir eru úti að leika sér hluta dags, nánast óháð veðri.  Koma því inn hjá krökkunum að regluleg hreyfing og útivera sé hluti af lífinu og þannig eigi það að vera út æfina.

 

Það hlýtur að vera hægt að gera þetta með markvissari hætti en gert er í dag og stuðla þannig að því að hver einstaklingur fái nauðsynlega, hvetjandi og uppbyggilega leiðsögn um það hvernig hægt er temja sér heilbrigða lífshætti, án þess að það verði gert að einhverri kvöð – eða tómum leiðindum og sálarkvíða sem auðvitað mun bara virka öfugt við það sem ætlast er til.

 

Hægt væri að hugsa sér að gera þetta með samvinnu ýmissa aðila, eins og t.d. skóla, íþróttafélaga, foreldrafélaga, sjálfstæðra æfingastöðva, skátahreyfingarinnar, hjálparsveita o.s.frv.  Stefnumótun og skipulag þarf að vera markviss og ekki ætti að vanta fjármagn, það virðist alla vega ekki vanta peninga þegar byggja þarf hallir eða aðra aðstöðu fyrir boltaíþróttir.       


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Algerlega sammála.

Að kenna börnum strax gildi þess að vera heilbrigð er algerlega ómetanlegt. Ég stakk upp á því við einn mann um daginn að kannski væri góð hugmynd að byrja skóladaga á 20-30 mín. hreyfingu til að koma blóðinu af stað. Þetta myndi klárlega auka eftirtekt í námi. Einnig er það algerlega nauðsynlegt að kenna rétt mataræði. Það væri hægt að gera það á skemmtilegan hátt með spurningarleikjum og jafnvel senda börnin heim með uppskriftir eða eitthvað í þá áttina.

Hreyfing verður að vera skemmtileg fyrir börn og ég held að of mikið keppnisskap ýti frekar líkamlega veikari börnunum út í horn frekar en að efla þau. Ég veit að mér fannst leikfimi hundleiðinleg í skóla þó ég hafi alltaf haft gaman af hreyfingu. Það eru ekki allir handbolta, fótbolta og körfuboltamenn. 

Gissur Örn (IP-tala skráð) 23.9.2008 kl. 17:07

2 identicon

Hæ hæ, ég er alveg sammála þessu!

Vil líka benda á að það mætti endurskoða máltíðir í leikskólum og skólum. Næringarfræðingar hafa bent á að of mikið er um hvítt hveiti og sykraðan mat í skólum. Auðvelt væri t.d. að skipta hvíta pastanu og hvítu hrísgrjónunum út fyrir gróf. Svo finnst mér frekar fáránlegt að hafa kókómjólk og franskbrauð eða kókópuffs í morgunmat á leikskólum

Kv. Biddý

Bryndís Ásta (IP-tala skráð) 23.9.2008 kl. 20:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband