24.9.2008 | 17:49
Eru börnin feit og löt?
Heyrði rétt áðan á rás II viðtal við prófessor Erling Jóhannsson. Gúglaði hann og fann m.a. eftirfarandi, undir þessari sömu fyrirsögn, sem er gott innlegg í pistilinn sem ég bloggaði í gær:
Offita meðal ungs fólks hefur aukist stórlega á undanförnum árum og er fyrirsjáanlegt heilbrigðisvandamál í framtíðinni" segir Erlingur, sem vinnur að rannsókn sem bæði mun kortleggja heilsufar barna í 2.-4. bekk í sex grunnskólum í Reykjavík og stuðla að sértækum íhlutunaraðgerðum til að auka hreyfingu barnanna og gera mataræði þeirra hollara. Með Erlingi í rannsóknahópnum eru prófessorarnir Inga Þórsdóttir og Ingvar Sigurgeirsson. Þá eru í hópnum þrír doktorsnemar, þau Ása Guðrún Kristjánsdóttir næringarfræðingur, Hannes Hrafnkelsson læknir og Kristján Þór Magnússon faraldsfræðingur.
Rannsóknir hafa leitt í ljós að um fimmtungur barna á aldrinum 7-9 ára er of þungur og fer hlutfallið hækkandi" segir Erlingur. Skýringar á ofþyngd barna liggja að nokkru leyti í lífsstíl þeirra, hreyfingarleysi, óhollu mataræði, sjónvarpsglápi og löngum setum fyrir framan tölvuskjái. Börn sem eru of þung geta síðar á ævinni átt á hættu að fá hjarta- og æðasjúkdóma, auk þess sem tíðni fullorðinssykursýki er hærri hjá þeim sem stríða við offitu en hjá hinum sem halda sig nærri kjörþyngd. Rannsóknin leggur grundvöll að forvörnum gegn offituvandanum, en einnig prófun á því hve mikið er hægt að gera til að bæta aðstæður barna og stuðla að heilbrigðari lífsstíl almennt. Með þessari rannsókn vinnst tvennt: Annars vegar fáum við stöðumat á mikilvægum heilsufarsþáttum hjá stórum hópi barna, hins vegar fáum við innsýn í vandamálið og getum á grundvelli íhlutunaraðgerðanna fengið dýrmætar upplýsingar um hvernig best sé að bregðast við vandanum."
Gott að eitthvað er að gerast í þessum málum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.