29.9.2008 | 17:38
Að falsa söguna - gjaldþrot Hafskips
Ég hef tekið eftir því undanfarið þegar rætt hefur verið um gjaldþrot Hafskips í lok árs 1985, að það virðist vera útbreidd skoðun að félagið hafi í raun ekki verið gjaldþrota heldur hafi einhver ill öfl knúið það í gjaldþrot. Fylgir þá gjarnan sögunni að þegar upp var staðið hafi megnið af kröfum í þrotabúið verið greiddar. Nýútkomin bók um Hafskipsmálið virðist hafa kynt undir þessum viðhorfum.
Ég átta mig ekki alveg á hvernig á þessu stendur en væntanlega eru menn að blanda þarna saman tveim óskyldum þáttum þessa máls, þ.e. gjaldþroti félagsins og löngu gæsluvarðhaldi sem helstu forsvarsmenn félagsins sættu að ófyrirsynju og ég held að enginn reyni nú að réttlæta.
Í Fréttablaðinu í dag skrifar Ragnar H. Hall, lögmaður og fyrrum skiptaráðandi þrotabúsins, ágæta grein um þetta mál þar sem hann skýrir stöðu félagsins og hvað greiddist í raun upp í kröfur. Niðurstaðan er í stuttu máli sú að félagið var algjörlega komið í þrot og kröfur í búið voru miklu hærri en eignir þess, enda óskaði stjórn félagsins eftir gjaldþrotaskiptum þann 6. des. 1985, eftir 18 daga greiðslustöðvun. Á endanum greiddust 50% upp í almennar kröfur sem er óvenju hátt hlutfall sem skýrist með því að eignir búsins voru í góðri ávöxtun í næstum 4 ár en kröfurnar voru greiddar á nafnverði. Auk þess var mörgum kröfum ekki lýst í búið þar sem kröfufrestur var mjög stuttur.
Ragnar segir að við skýrslutökur fyrir skiptarétti hafi stjórnendur félagsins gert ítarlega grein fyrir þeim erfiðleikum sem leiddu til gjaldþrotsins en aldrei hafi komið fram hjá þeim þau viðhorf að félagið hafi ekki verið gjaldþrota í reynd eða að aðrir aðilar hefðu stuðlað að gjaldþrotinu með óeðlilegum afskiptum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.