28.11.2008 | 16:35
Morgunleikfimi
Tilkynnt hefur verið um harkalegan niðurskurð hjá RÚV og ekkert við því að segja á þessum síðustu og verstu tímum. Leit lauslega yfir fréttina en sá ekki í fjótu bragði neitt um að laun útvarpsstjóra og annarra æðstu stjórnenda yrðu lækkuð. En það hlýtur að vera einn liður í sparnaðinu, vil ekki trúa öðru.
Held ég hafi heyrt rétt í morgunútvarpinu þegar verið var að fjalla um niðurskurðinn að eitt af því sem ætti að leggja af væri morgunleikfimin, sem verið hefur fastur liður kl. að verða tíu á morgnana í marga áratugi. Fólk af minni kynslóð man t.d. þegar Valdimar Örnólfsson sá um þáttinn, auk margra ágætra stjórnenda sem eftir honum komu.
Þetta er ráðstöfun sem ég ekki skil því það er fjöldinn allur af eldra fólki sem stundar þessa líkamsrækt reglulega og hefur gaman og gagn af því. Og það er algjör óþarfi að hætta þessum útsendingum því það eru örugglega til upptökur af þessum þáttum langt aftur í tímann og allt í lagi að senda út gamlar upptökur, þetta er efni sem ekki eldist og er í fullu gildi þó gömul sé. Með því móti væri hægt að halda þessu áfram, án nokkurs kostnaðar fyrir RÚV.
Athugasemdir
Mér skilst að æðstu stjórnendur RUV lækki um 8-11% í launum.
Annars er ég sammála þér með leikfimina. Það kostar ekkert að senda út gamlar upptökur.
Gissur Örn (IP-tala skráð) 28.11.2008 kl. 16:55
Já, sá þetta í fréttunum áðan að þeir ætla að lækka launin sín. En vonandi fær fólk morgunleikfimina áfram.
Bragi Ragnarsson, 28.11.2008 kl. 21:45
Ég bendi á þennan pistil og allar athugasemdirnar í sambandi við uppsagnirnar á RÚV. Þetta er fróðlegur lestur.
Lára Hanna Einarsdóttir, 30.11.2008 kl. 11:35
Las pistilinn þinn og allar athugasemdirnar þar. Þetta er ótrúleg staða sem búið er að koma þessari annars ágætu stofnun í.
Bragi Ragnarsson, 30.11.2008 kl. 15:51
Það eru bara tveir stjórnendur á eftir Valdimari. Jónína Benidiktsóttir í 1-2 ár og Halldóra Björnsdóttir í 21 ár.
Kristín (IP-tala skráð) 1.12.2008 kl. 00:58
Húrra, morgunleikfimin verður áfram. Búið að tilkynna að gamlar upptökur verða spilaðar. Þeim er ekki alls varnað!
Bragi Ragnarsson, 1.12.2008 kl. 16:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.