Myndir og fréttir frá Argentínu

Erum komin aftur til Buenos Aires eftir frábæra ferð til Iguazu.  CIMG1723

CIMG1736Fórum í morgun og skoðuðum fossana Brasilíumegin en þar fær maður betri yfirsýn.  Parana áin sameinast Iguazu ánni rétt neðan við fossana og fórum við á stað þar sem sést vel yfir ármótin yfir til landanna þriggja, Argentínu, Paraguay og Brasilíu. Þetta er mikið sjónarspil og set hér nokkrar myndir sem ættu að gefa hugmynd um það (með  special kveðju til Kjartans). Við ármótin er vatnsmagnið um 12.000  rúmmetrar á sekúndu, sem er um 35 x vatnsmagnið í  Þjórsá og er dýpið þar um 90 metrar.  Hægt er að sigla á fljótinu milli Iguazu og Buenos Aires og  sáum við þarna gamalt hótelskip sem hafði geispað golunni fyrir nokkru síðan.

Vorum að ljúka við matinn hjá Finni, djúsí nautasteik og ís áCIMG1744 eftir.  SVo er spurning um að fara á tangóstað, áður en farið er í háttinn.

 Bestu kveðjur til allra 


Iguazu fossarnir

Höfum verið að skoða fossana í allan dag og þeir eru aldeilis stórkostlegir.  Þetta eru í raun margir fossar og hægt að nálgast þá með ýmsum hætti.  Við höfum kíkt á þá frá ýmsum sjónarhornum og gengum inn í úðann í morgun í ágætu veðri og blotnuðum lítillega.  En það var bara forsmekkur af því sem síðar varð!  Það skall nefninlega á okkur þessi líka litla rigning og hefur helliringt í allan dag.  Við sigldum svo með bát undir fossana og inn í úðann, sem var svo sem ágætt því hann var heitari en rigningin.  Keyrðum svo með trukk í gegnum regnskóginn og öll vorum við gegnblaut og allt okkar dót eftir þessa svaðilför.

En erum nú komin upp á hótel og orðin heit og þurr aftur.  En enn rignir.  Í fyrramálið ætlum við að keyra yfir til Brasilíu og skoða fossana þeim megin, sem ku ekki vera síðra.  En vonandi verður sólin þá farin að skína aftur.    Fljúgum svo seinnipartinn á morgun aftur til Buenos Aires og ætlum að borða nautasteik hjá Finni, sem hann auðvitað eldar af sinni alkunnu snilld.

Þökkum Helgu, Ingu og fleirum fyrir kveðjur sem við höfum fengið í athugasemdirnar á blogginu og biðjum fyrir bestu kveðjur til allra.


Iguazu

Flugum í dag frá Buenos Aires til Iguazu og ætlum að skoða þessa mögnuðu fossa og umhverfi þeirra næstu daga.  Flugið tók ekki nema 1,5 klst en breytingin í veðurfari var ótrúleg, fórum úr ca. 20 stiga hita og lentum í tropical loftslagi, röku og mjög heitu lofti, sennilega um 30 stig.  Erum hér á landamærum Argentínu og Brasilíu og ætlum að skoða fossana frá öllum hliðum.  Allir hressir kátir og biðja fyrir bestu kveðjur heim.´

Tölvan er eitthvað hressari hér, mbl.is næst ágætlega og við fylgjumst með fréttum að heiman, sem við ættum kannski ekki að gera, enda ekkert uppbyggilegt í þeim.


Buenos aires

Ferðin til Buenos Aires gekk áfallalaust, vorum komin inn á hótel þar 24 klst eftir að við fórum að heiman í Reykjavík, um kl. 13 á fimmtudaginn. Þar hittum við Finn (Bragason) sem hefur verið hér í MBA námi síðustu 2 mánuðina og hefur verið okkar leiðsögumaður þessa daga og staðið sig með ágætum.Tölvumálin eru ekki í fullkomnu lagi, höfum ekki komist inn á mbl.is og þar af leiðandi ekki getað bloggað en gerum þetta nú í framhjáhlaupi og vonandi stendur það til bóta.

Borgin er mjög skemmtileg og fjölbreytt, aðeins kaótísk en þó skipulögð að vissu marki og býðurCIMG3259 uppá allt sem stórborgir hafa upp á að bjóða og gott betur. Hún er á 36. gráðu suðlægrar breiddar og 60. gráðu vestur, sem þýðir að veðurfar er frábært, kannski svipað og í Madrid og við komum hér inn í vorið þar sem allt er í fullum blóma og þokkalegt hitastig, svona 20 -25 gráður að deginum. Sól kemur upp í austri og sest í vestri, eins og lög gera ráð fyrir, en við höfðum talsvert fyrir því að átta okkur á hvar hún stæði um hádegisbil, þ.e. hvort hún væri þá í norðri eða suðri. En auðvitað er hún í norðri um hádegið hér sunnan við miðbaug og í dag var nokkuð kaldur sunnan andvari sem blés á okkur, beint frá suðurpólnum.

CIMG3260Argentína er þekkt fyrir Evitu, Tangó og knattspyrnu, og þá sérstaklega fótboltahetjuna Maradonna, sem reyndar hefur átt í erfiðleikum undanfarið vegna óreglu og eiturlyfjanotkunar. Við rákumst á kappann fyrir tilviljun í einu þekktasta tangósvæði borgarinnar og tókum hann auðvitað tali og smelltum af honum mynd í okkar góða félagskap, sem fylgir hér með. Á henni má sjá Sigfús, Finn og Braga, ásamt goðinu Maradonna, en hann virtist allsgáður og við bestu heilsu.

Argentína átti í miklum fjárhagslegum vandamálum fyrir nokkrum árum og þurfti þá að leita á náðir IMF og nú virðast þeir aftur litlu betur settir en við í þeim efnum. Það er því ágætt að vera Íslendingur hér núna því þegar þeir heyra að við séum frá Íslandi votta þeir okkur einlæga samúð og eru tilbúnir til að veita okkur bestu kjör og afslætti af því sem keypt er. En við höfum lifið hér mjög sparlega og borðum nánast eingöngu nautalundir, sem er það ódýrasta sem hægt er að fá.

Fljúgum á morgun, þriðjudag, til Iguazu Falls og komum síðan til baka til Buenos Aires á fimmtudag. Förum síðan á laugardaginn til La Paz í Bólivíu.Við Jónína, ásamt ferðafélögum okkar þeim Steingerði og Sigfúsi, erum í feiknastuði og biðjum fyrir bestu kveðjur á klakann.  


Brain Drain?

Nú er verið að pakka og á morgun skal haldið af stað í reisu um þrjú lönd S-Ameríku, Argentínu, Bolivíu og Perú.  Við ferðumst á eigin vegum ásamt vinum okkar Sigfúsi og Steingerði og verðum í rúmar 3 vikur.  Fljúgum í gegnum NY á morgun og strax annað kvöld áfram til Buenos Aires og verðum komin þangað rétt fyrir hádegi á fimmtudag, ef guð lofar.

Illa gekk að afla gjaldeyris til ferðarinnar og erum þess vegna með nokkuð af þjóðlegri og hollri matvöru með okkur sem við getum notað og ætlum líka að reyna að koma í verð, t.d. fjallagrös, lýsi, krækiber, kæsta skötu, skyr og hákarl. 

Ætlunin er að láta eitthvað frá sér heyra á þessum vettvangi næstu vikurnar, sem verður þó eitthvað háð því hvernig gengur að tengjast og finna tíma til skrifta, því ferðaáætlunin er nokkuð stíf.  T. d. ætlum við að ganga Inkastíginn fræga til Machu Picchu en þá er gist í tjöldum, sem væntanlega eru án internet tengingar!  

Sendum bloggvinum og öðrum þjáningarsystkinum sem kunna að rekast á þessar línur bestu kveðjur og vonum að mál verði eitthvað farin að skýrast þegar við snúum aftur heim - ef við ákveðum þá ekki að setjast að þarna suðurfrá fyrir fullt og fast.


Enginn æsingur....

Ég rölti um bæinn, með ofurlitlar áhyggjur, og heyrði á tal tveggja öldunga,  þar sem þeir sátu fyrir utan hjúkrunarheimilið í haustblíðunni.  Annar sagði: “Nú er daginn farið að stytta og heldur hefur kólnað” og hinn svaraði að bragði: “Já, svona gengur þetta.  Bráðum verður komið skammdegi og þá er stutt í jólin og nýárið og svo fer sólin að aftur að hækka á lofti og styttist í vorið”.  

 

Svo horfðu þeir á þrestina fljúga grein af grein og tína berin af reynitrjánum og virtu fyrir sér laufin í fallegu haustlitunum, sem lágu eins og hráviði allt í kring.. “Það er víst eitthvað vandamál með bankana heyri ég” sagði annar og hinn ansaði að bragði “Já, það hefur svo sem gerst áður að þeir hafi orðið uppskroppa með bánkaseðla”.  Annar hélt áfram: “Eigum við ekki að rölta inn og fá okkur kaffisopa, ég átti hálfpartinn von á að dóttir mín myndi líta við með hann litla nafna minn”   Og ég horfði á eftir þeim staulast inn gangstíginn, annar með staf en hinn í göngugrind.  Þegar ég leit upp sá ég fagran flokk gæsa í oddaflugi, æfa sig fyrir langflugið yfir hafið, þær gömlu og reyndu fyrst en ungviðið aftar, enda var manni kennt að skjóta aðeins aftan úr hópnum, hinar væru gamlar og seigar.

 

Pólverjinn sem býr í kjallaranum í númer 19 sagðist vera að fara.  Þetta væri alveg glórulaust og hann gæti varla dregið fram lífið af tekjunum í dag.  Hann er á biðlista hjá Iceland Express til Póllands og hlakkar til að sjá fjölskylduna.  Trúði mér fyrir því að hann myndi einskis sakna á Íslandi, hann hefði bara verið hér vegna teknanna og hefði ekki náð að mynda nein tengsl við þessa skrýtnu og torskyldu Íslendinga.

 

Og á Austurvelli heyrði ég á tal tveggja útigangsmanna.  Annar sagði: “ Þetta er nú meira fíflið hann Gordon Brown, mér skilst að hann ætla að rústa fjármálakerfi Íslendinga og það án nokkurrar ástæðu”.  Og hinn svaraði drafandi röddu:  “Ég veit ekkert um þennan Gordon Brown en ég hef alltaf haldið upp á Gordon Gin, er þetta ekki sama familían?”

 

Mér leið betur þegar ég kom heim.


Best að láta sig bara hverfa....

Frændi minn, sem talaði við mig í gær, trúði mér fyrir því að hann vildi gjarnan geta farið út á land og dvalið á eyðibýli í nokkurn tíma.  Helst einhverri hlunnindajörð fyrir vestan þar sem hægt væri að stunda veiðiskap, kannski hafa nokkrar rollur og bátkænu og lifa þannig af landsins gæðum, eins og forfeður okkar gerðu um aldir.  Hann nefndi það ekki sérstaklega en ég er viss um að hann myndi ekki vilja hafa neina fjölmiðla nálægt sér og ekki fá neinar fréttir.

 

Þannig ráðstöfun hentar nú kannski ekki öllum, en ég skil hann frænda minn vel.  Menn verða yfir sig þreyttir á öllum þessum hamagangi og endalausum fréttaflutningi, sem oftast nær ekki að skýra málin eða svara þeim spurningum sem brenna á mörgum.

 

Lystisnekkjan 101

Bendi á þessa stórkostlegu grein í mbl.is í dag.

"Ingibjörg Pálmadóttir lýsir í viðtali við glanstímaritið Boat International hvernig hönnun lystisnekkjunnar 101 gekk fyrir sig og hvernig samstafið við hollensku skipasmíðastöðina gekk fyrir sig. Snekkjan var hönnuð af Ingibjörgu í sama stíl og Hótel 101 og einkaþota þeirra hjóna". 

Sjá greinina í Boat International.

Myndirnar segja meira en mörg orð.  Skipið er ekki nema 40 metra langt, svona aðeins styttra en skuttogari, en hefur sjálfsagt kostað á við nokkra slíka.  Það er ekki ónýtt að eiga fólk sem hefur efni á svona gripum, og það í sjatteringu.

Ég vona bara að þau hjón neyðist ekki til að selja þessi leikföng nú þegar þrengist um.


Esjan er æðisleg

Ég ætla ekki að blogga um ástandið - fæ engu um það ráðið og alltof margir að tjá sig hvort sem er.

En ég hreinsaði hugann í gær, eins og svo oft áður, með því að ganga á Esjuna.  Mikið óskaplega þykir mér vænt um þetta fjall.  Það er bæði útlitið og karakterinn sem heilla mig, að ekki sé talað um notagildið.  Svo veitir hún Reykvíkingum skjól fyrir köldum NA- vindum. 

Það má jafnvel líkja henni við góða og fallega konu.  Það er endalaust hægt að dást að leyndardómsfullri fegurð hennar, hún breytir í sífellu um snyrtingu, klæðnað og útlit, hún veitir skjól en getur byrst sig ef svo ber undir.  Og svo er hægt að fá útrás með því að fara uppá hana.

Og hún er alltaf til staðar og allir geta notið hennar og kostar ekki neitt.  Ég hvet alla, bæði konur og kalla, sem ekki hafa notið hennar að reyna, það er ekki endilega ástæða til að fara alla leið, þó auðvitað sé það ákjósanlegra.  Það er hægt að byrja rólega og æfa sig en fikra sig svo áfram og enda á toppnum.  Og svo í góða sturtu á eftir!

Var einhver að kvarta?


Ódýra Ísland

Er búinn að vera með nokkra ameríkana hér undanfarna daga og ferðast með þá um landið, ýmist í kolvitlausu veðri eða allsæmilegu.

Þeir gistu á Hilton, sem þeim fannst á mjög hagstæðu verði.  Svo borðuðu þau kvöldverði á Vox og Sjávarkjallaranum, sem var líka mjög ódýrt og áttu engin orð yfir gæðin og frábæra þjónustu.  Sögðu að svona málsverðir á svona fínum stöðum myndu kosta tvöfalt í NY.

Hef verið að svipast um eftir norðurljósum, þá sjaldan sem hefur komið glufa í skýin.  Skemmst er frá því að segja að ég hef engin séð.  Getur verið að það sé vegna minni sólgosa?  Eða hef ég bara verið óheppinn?  Látið endilega í ykkur heyra ef þið hafið séð eitthvað. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband