29.9.2008 | 17:38
Að falsa söguna - gjaldþrot Hafskips
Ég hef tekið eftir því undanfarið þegar rætt hefur verið um gjaldþrot Hafskips í lok árs 1985, að það virðist vera útbreidd skoðun að félagið hafi í raun ekki verið gjaldþrota heldur hafi einhver ill öfl knúið það í gjaldþrot. Fylgir þá gjarnan sögunni að þegar upp var staðið hafi megnið af kröfum í þrotabúið verið greiddar. Nýútkomin bók um Hafskipsmálið virðist hafa kynt undir þessum viðhorfum.
Ég átta mig ekki alveg á hvernig á þessu stendur en væntanlega eru menn að blanda þarna saman tveim óskyldum þáttum þessa máls, þ.e. gjaldþroti félagsins og löngu gæsluvarðhaldi sem helstu forsvarsmenn félagsins sættu að ófyrirsynju og ég held að enginn reyni nú að réttlæta.
Í Fréttablaðinu í dag skrifar Ragnar H. Hall, lögmaður og fyrrum skiptaráðandi þrotabúsins, ágæta grein um þetta mál þar sem hann skýrir stöðu félagsins og hvað greiddist í raun upp í kröfur. Niðurstaðan er í stuttu máli sú að félagið var algjörlega komið í þrot og kröfur í búið voru miklu hærri en eignir þess, enda óskaði stjórn félagsins eftir gjaldþrotaskiptum þann 6. des. 1985, eftir 18 daga greiðslustöðvun. Á endanum greiddust 50% upp í almennar kröfur sem er óvenju hátt hlutfall sem skýrist með því að eignir búsins voru í góðri ávöxtun í næstum 4 ár en kröfurnar voru greiddar á nafnverði. Auk þess var mörgum kröfum ekki lýst í búið þar sem kröfufrestur var mjög stuttur.
Ragnar segir að við skýrslutökur fyrir skiptarétti hafi stjórnendur félagsins gert ítarlega grein fyrir þeim erfiðleikum sem leiddu til gjaldþrotsins en aldrei hafi komið fram hjá þeim þau viðhorf að félagið hafi ekki verið gjaldþrota í reynd eða að aðrir aðilar hefðu stuðlað að gjaldþrotinu með óeðlilegum afskiptum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.9.2008 | 17:05
Til umhugsunar í efnahagslægðinni
Abraham Lincoln, sem var repulikani og 16. forseti Bandaríkjanna, leiddi þjóð sína með farsælum hætti gegnum mestu erfiðleika sem Bandaríkin hafa gengið í gegnum, borgarastríðið 1861 1865. Hann var myrtur innan við viku eftir að stríðinu lauk, fyrstur bandaríkjaforseta til að láta lífið með þeim hætti.
Hann setti fram eftirfarandi staðhæfingar, sem allt til þessa dags hafa mótað bandarískt þjóðfélag:
- Þú getur ekki hjálpað þeim fátæku með því að uppræta þá ríku.
- Þú getur ekki styrkt þá veikbyggðu með því að veikja þá sterku.
- Þú getur ekki skapað velmegun með því að vinna gegn ráðdeild.
- Þú getur ekki hjálpað launþeganum með því að brjóta niður launagreiðandann.
- Þú getur ekki styrkt bræðralag manna með því að kynda undir hatri milli stétta.
- Þú getur ekki byggt upp skapfestu og hugrekki með því að fjarlægja frumkvæði og sjálfstæði.
- Þú getur ekki hjálpað fólki til frambúðar með því að framkvæma það sem það gæti og ætti að gera fyrir sig sjálft.
Það er ekki auðvelt að hrekja þetta. Ert þú sammála?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.9.2008 | 17:49
Eru börnin feit og löt?
Heyrði rétt áðan á rás II viðtal við prófessor Erling Jóhannsson. Gúglaði hann og fann m.a. eftirfarandi, undir þessari sömu fyrirsögn, sem er gott innlegg í pistilinn sem ég bloggaði í gær:
Offita meðal ungs fólks hefur aukist stórlega á undanförnum árum og er fyrirsjáanlegt heilbrigðisvandamál í framtíðinni" segir Erlingur, sem vinnur að rannsókn sem bæði mun kortleggja heilsufar barna í 2.-4. bekk í sex grunnskólum í Reykjavík og stuðla að sértækum íhlutunaraðgerðum til að auka hreyfingu barnanna og gera mataræði þeirra hollara. Með Erlingi í rannsóknahópnum eru prófessorarnir Inga Þórsdóttir og Ingvar Sigurgeirsson. Þá eru í hópnum þrír doktorsnemar, þau Ása Guðrún Kristjánsdóttir næringarfræðingur, Hannes Hrafnkelsson læknir og Kristján Þór Magnússon faraldsfræðingur.
Rannsóknir hafa leitt í ljós að um fimmtungur barna á aldrinum 7-9 ára er of þungur og fer hlutfallið hækkandi" segir Erlingur. Skýringar á ofþyngd barna liggja að nokkru leyti í lífsstíl þeirra, hreyfingarleysi, óhollu mataræði, sjónvarpsglápi og löngum setum fyrir framan tölvuskjái. Börn sem eru of þung geta síðar á ævinni átt á hættu að fá hjarta- og æðasjúkdóma, auk þess sem tíðni fullorðinssykursýki er hærri hjá þeim sem stríða við offitu en hjá hinum sem halda sig nærri kjörþyngd. Rannsóknin leggur grundvöll að forvörnum gegn offituvandanum, en einnig prófun á því hve mikið er hægt að gera til að bæta aðstæður barna og stuðla að heilbrigðari lífsstíl almennt. Með þessari rannsókn vinnst tvennt: Annars vegar fáum við stöðumat á mikilvægum heilsufarsþáttum hjá stórum hópi barna, hins vegar fáum við innsýn í vandamálið og getum á grundvelli íhlutunaraðgerðanna fengið dýrmætar upplýsingar um hvernig best sé að bregðast við vandanum."
Gott að eitthvað er að gerast í þessum málum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.9.2008 | 12:22
Harður vetur framundan?
Þynnist króna þessa lands,
þröngt í búi víða..
Allt fer hratt til andskotans
eykur vetrarkvíða.
Við endalokum ei þó býst
auðnu tel ég vísa.
Eins og sólin, er það víst,
upp mun krónan rísa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.9.2008 | 16:51
Keppnisíþróttir og hetjudýrkun
Í okkar markaðsvædda þjóðfélagi er mikil áhersla lögð á frammistöðu einstaklingsins og menn hvattir til að rækta og nota þá hæfileika sem þeir hafa fengið í vöggugjöf til að skara fram úr og ná árangri í lífinu. Framabrautin reynist svo oft þyrnum stráð og margir ná árangri með því að olnboga sig áfram, ryðjast fram fyrir og traðka á öðrum.
Innræting í þessa veru byrjar snemma, krakkarnir eru hvött til að standa sig vel í skólanum og þeim sem standa sig vel er hampað og þeir verðlaunaðir með ýmsum hætti. Og þau eru hvött til að taka þátt í ýmsum íþróttum, sem yfirleitt byggjast á einhverkonar keppni, jafnvel þó þau hafi hvorki til þess hæfileika eða áhuga.
Það er hið besta mál að hvetja krakka til að hreyfa sig, stunda útiveru og lifa heilsusamlegu líferni. En ég held að áherslan sem lögð er á hvers konar hóp- og keppnisíþróttir sé allt of mikil og oft á tíðum beinlínis skaðleg. Hvað verður um allan þann fjölda sem ekki nær árangri eða kemst í fremstu röð? Krakka sem hafa hvorki andlega eða líkamlega hæfileika til ná árangri eða skara fram úr? Þeim líður illa, eru vansæl og fá á tilfinninguna að þau séu misheppnuð eða eitthvað sé að þeim, þau falla ekki inn í hópinn, er oft strítt og lenda jafnvel í einelti. Þau reyna síðan að komast hjá að mæta, hvort sem um er að ræða íþróttatíma í skólanum eða aðrar íþróttir, reyna að fá sjúkraleyfi eða hreinlega skrópa. Og fá þá oftar en ekki ímugust á hverskonar hreyfingu og íþróttum sem oft mótar svo líf þeirra eftir það.
Það sem þarf að gera er að bjóða krökkum upp á miklu fjölbreyttari hreyfingu eða útiveru, þar sem áhersla væri lögð á að finna út hvað hentar hverjum einstakling og vekur áhuga hans. Sem dæmi má nefna gönguferðir tengdar ýmis konar náttúrskoðun og ratleikjum, fjallgöngum og útilegum, einstaklingsmiðaða tækjaþjálfun, sund, lyftingar og líkamsmótun og alhliða líkamsrækt sem samanstendur af nokkrum mismunandi þáttum. Þetta má svo tengja fræðslu um næringu og samspil næringar og hreyfingar og hvernig hver einstaklingur getur komið sér upp kerfi sem hentar honum og vekur áhuga. Það þarf að móta og innræta, byrja strax í barnaskóla og í raun halda áfram því sem þegar er gert á leikskólum, þar sem krakkarnir eru úti að leika sér hluta dags, nánast óháð veðri. Koma því inn hjá krökkunum að regluleg hreyfing og útivera sé hluti af lífinu og þannig eigi það að vera út æfina.
Það hlýtur að vera hægt að gera þetta með markvissari hætti en gert er í dag og stuðla þannig að því að hver einstaklingur fái nauðsynlega, hvetjandi og uppbyggilega leiðsögn um það hvernig hægt er temja sér heilbrigða lífshætti, án þess að það verði gert að einhverri kvöð eða tómum leiðindum og sálarkvíða sem auðvitað mun bara virka öfugt við það sem ætlast er til.
Hægt væri að hugsa sér að gera þetta með samvinnu ýmissa aðila, eins og t.d. skóla, íþróttafélaga, foreldrafélaga, sjálfstæðra æfingastöðva, skátahreyfingarinnar, hjálparsveita o.s.frv. Stefnumótun og skipulag þarf að vera markviss og ekki ætti að vanta fjármagn, það virðist alla vega ekki vanta peninga þegar byggja þarf hallir eða aðra aðstöðu fyrir boltaíþróttir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.9.2008 | 11:46
Snjór í Esjunni
Það hefur verið talinn ágætur mælikvarði á veðurfar og hitastig hér sunnanlands hvort allan sýnilegan snjó á Esjunni tekur upp að sumarlagi.
Undanfarin sumur hefur allur snjór verið horfinn fyrir lok ágúst og er það til marks um hlýnandi veðurfar. Talið er að það hafi gerst af og til á hlýskeiðinu frá 1930 til 1966 en frá árinu 1966 til ársins 1998 hvarf snjórinn aldrei alveg, eftir því sem ég kemst næst.
Ég hef verið að reyna að fylgjast með þessu undanfarnar vikur en það hefur reyndar ekki verið auðvelt vegna þess hvað tíðarfarið hefur verið rysjótt og skyggni lélegt. Þegar ég gekk á Þverfellshornið fimmtudaginn 11. sept. sá ég greinilega þrjá smá skafla. En s.l. laugardag, þann 20. var ég aftur á ferðinni þar og sá vel í Gunnlaugsskarðið og þá virtist mér allur snjór horfinn, enda hafði verið milt veður og talsverð úrkoma dagana þar á undan.
Ég held það sé því hægt að slá því föstu að snjórinn sé nú horfinn. Það hefur gerst síðar en mörg undanfarin ár og held ég það sé fyrst og fremst vegna þess hve snjóalög voru mikil síðastliðinn vetur en ekki vegna kulda á þessu ágæta sumri sem var að líða.
Í gærmorgun var Esjan svo alhvít ofan til en það hvarf þegar leið á daginn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.9.2008 | 14:36
Ný ísöld innan skamms?
Hlutstaði á athyglisverðan fyrirlestur í Norræna Húsinu í síðustu viku þar sem sænskur prófessor hélt því fram að hlýnun jarðar væri ekki nema að óverulegu leyti af mannavöldum og að allar líkur bentu til þess að ný ísöld væri á næsta leyti.
Hann var mjög sannfærandi og setti fram ýmis rök máli sínu til stuðnings og það helst að breytileg útgeislun sólarinnar væri helsti orsakavaldur breytilegs veðurfars á jörðinni. Það væri orsök hlýnandi veðurfars á liðinni öld og þar með hækkandi hitastigs sjávar, sem væri helsta ástæða aukinnar losunnar koltvísýrings og gróðurhúsaáhrifa.
Jafnframt færði hann rök fyrir því að útgeislun sólar færi nú minnkandi og þegar væru merki um það með kólnandi veðurfari. Liklega myndi þessi þróun myndi halda áfram og ný mini-ísöld yrði skollin á okkur um 2030.
Þetta eru svo sem ekki nýjar upplýsingar og má finna endalausar greinar á veraldarvefnum um svipað efni og fróðlegt að kynna sér málið nánar.
En einhverra hluta vegna heyrist ekki hátt í þessum spámönnum, t.d. hef ég ekki séð neina umfjöllun í fjölmiðlum um þennan fyrirlestur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.7.2008 | 11:33
Gönguferð um Hengladali
Fór í mjög skemmtilega gönguferð í gær með nokkrum frábærum konum. Gengum úr Sleggjubeinsskarði, um Hengladali, meðfram Ölkelduhnúk, niður Reykjadal í Hveragerði. Og fórum auðvitað í bað í Reykjadalsá.
Orkuveitan hefur látið stika þessa leið, sem er ágæt framkvæmd, en ekki er einfalt að keyra að bílastæðinu þar sem leiðin liggur upp Sleggjubeinsskarð vegna þess að þegar ekið er framhjá stöðvarhúsi Hellisheiðarvirkjunar er skilti sem segir að þetta sé lokað vinnusvæði og óviðkomandi sé ekki heimilt að aka lengra. Væntanlega snúa ókunnugir frá, enda engar upplýsingar sýnilegar um hvert eigi að fara.
Ekki virðist þessi fína gönguleið vera mikið gengin og sáum við ekki nokkurn mann fyrr en komið var að Ölkelduhnúk, en þar og við Reykjadalsá var slæðingur af fólki.
Mér finnst ég hafi séð meira en áður af kindum sem ekki hafa verið rúnar, með reyfistætlur hangandi á sér. Hef heyrt þá skýringu að bændum finnist ekki taka því að rýja þar sem ullarverð sé svo lágt. Þetta er ljótt að sjá og ég held að þetta hljóti að vera skepnunum til mikilla óþæginda og er að sjálfsögðu viðkomandi bændum til mikillar skammar. Þurfa dýraverndunarsamtök ekki að láta þetta til sín taka?
BR
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.6.2008 | 21:15
Ég er enn á lífi........
Til hamingju með daginn.
Hef ekki bloggað í háa herrans tíð en vil láta vini og vandamenn - og bloggvini - vita að enn er lífsmark með mér.
Hef verið að vinna undanfarið og talsvert framundan af mjög skemmtilegum verkefnum, aðallega litlir hópar "small groups - great experience", bæði fyrir Ísafold og aðrar góðar ferðaskrifstofur.
Lauk 9 daga göngu- og ökuferð fyrir Elderhostel á föstudaginn og fór beint aftur austur í Skaftafell og gekk á Hvannadalshnjúk á laugardag, í frábæru veðri og með frábæru fólki, þar á meðal minni ágætu eiginkonu, mágkonu og syni. Sjá hjálagt mynd af mér og minni ektakvinnu á toppnum.
Á ekki von á að blogga mikið á næstunni vegna mikilla ferðalega við leiðsögnina en kannski rætist úr því með haustinu.
En ég er staðráðinn í því að fara að tilmælum forsætisráðherra í ræðu dagsins og ætla héðan í frá að breyta neyslumynstri mínu, segja upp helgarmogganum og hætta við að kaupa nýja gönguskó, þeir gömlu geta dugað eitt ár enn.
Má til með að ljúka þessu með því að biðja fyrir sálu gömlu birnunnar sem myrt var á Skaga í kvöld, með ærnum kostnaði og nánast í beinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.5.2008 | 08:42
Bitruvirkjun
Nú eru að verða síðustu forvöð að senda inn mótmæli vegna breytinga á aðalskipulagi Sveitarfélagsinns Ölfuss, sem heimilar byggingu allt að 135 MW jarðvarmavirkjunar á þessu flotta útivistarsvæði og náttúruperlu Bitru/Ölkelduháls. Tímamörk fyrir athugasemdir er 13. maí.
Þær Lára Hanna, Petra og Katarina hafa verið óskaplega duglegar að bejast á móti þessum áformum og hafa sett upp vefsíðuna www.hengill.nu þar sem finna má ýmsar fróðleik um þetta mál, ásamt uppkasti af athugasemdabréfi. Vil ég hvetja alla til að kynna sér málið og senda inn athugasemd, sem þarf að vera skrifleg og send í venjulegum pósti.
Ég held að flestir geti verið sammála um að þarna sé gengið of langt og skora á alla sem þetta sjá að leggja þessu máli lið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)