Fossavatnsgangan

Í dag var Fossavatnsgangan haldin á Ísafirði, skíðaganga sem haldin hefur verið að mestu óslitið síðan 1935 og er nú partur af World Loppet skíðagöngunni, alþjóðlegri gönguröð þar sem Vasagangan er sennilega þekktust.  Mjög vel er að þessari göngu staðið og er þetta síðasta gangan í röð skíðagöngukeppna sem haldnar eru á norðurhveli jarðar.  Margir af þekktustu göngumönnum heims taka þátt í þessari göngu og var reiknað með að u.þ.b. 10 af 20 bestu skíðagöngumönnum heims yrðu með í Fossavatnsgöngunni þetta árið.

 Því miður gat ég ekki tekið þátt þetta árið , var að stíga upp úr slæmru kvefi og hálsbólgu.  En nú seinnipartinn í dag er ég búinn að skanna fjölmiðlana í leit að fréttum af þessu frábæra alþjóðlega  íþróttamóti og hvernig það gekk - og er skemmst frá því að segja að ég hef ekki séð eða heyrt múkk um þennan atburð.  mbl.is, Stöð 2, Ríkissjónvarpið, sama hvað það er, ekki múkk um þetta.  Ég er búinn að fræðast um allskonar boltaleiki sem fram hafa farið um allan heim, fótbolta, handbolta, körfubolta, blak, tennis, bilaíþróttir, aflraunir og guð má vita hvað, en ekki er minnst einu orði á Fossavatnsgönguna á Ísafirði. 

Um allt land hefur undanfarið átt sér stað óeigingjarnt starf sjálfboðaliða sem kenna og þjálfa krakka og unglinga í skíðagöngu og er mikill áhugi og aukning í þessari grein, enda hentar þetta að mörgu leiti betur okkar rysjótta tíðarfari en alpagreinar.  Skíðagöngufélgið Ullur er gott dæmi um þá vakningu sem hefur átt sér stað.  En hvar eru fjölmiðlarnir og fréttamenn?  Það þarf að hrista duglega upp í þeim og ég skora á íþróttaféttamenn að kynna sér þessi mál og taka þátt í kynningu á þessari frábæru íþrótt. 


Hvað á að gera við skemmdarvargana?

 Skv lögreglu eru veggjakrotararnir og brennuvargarnir aðallega ungir menn, í kringum tvítugt, sem eru í einhverskonar keppni um hver getur náð lengst í skemmdarverkunum.  Það þarf að gera þessa ungu menn ábyrga fyrir skemmdarverkunum og straffa þá með einhverjum hætti.  Ég ætla þó ekki að mæla með að þeir verði hýddir opinberlega eða settir í gapastokk og sjálfsagt þýðir ekkert að dæma þá til sektargreiðslu, fæstir eru líklega færir um að borga sektir. 

En það væri hægt að dæma þá til að bæta tjónið með vinnuframlagi, þ.e. láta þá planta trjám í stað þeirra sem hafa skemmst í eldi eða mála yfir veggjakrotið.  Þetta þarf að gera undir stífu eftirliti, kenna þeim rétt vinnubrögð og sjá til þess að þeir mæti og stundi vinnuna á þeim tíma sem til þess er ætlaður.  Það gæti svo verið liður í því að endurhæfa þetta unga fólk og kenna þeim að koma fram af ábyrgð og sanngirni gagnvart umhverfinu og samfélaginu öllu.

 Ég er viss um að þetta ráð myndi verða til að bæta ástandið.


Þjóðarsjóður

Á aðalfundi Landsbankans í s.l. viku kom Björgólfur Guðmundsson fram með hugmynd um að stofna Þjóðarsjóð, til að styrkja efnahagslífið og sem hægt væri að grípa til þegar óvænt áföll dynja yfir. 

 

Við fyrstu sýn lítur þetta út fyrir að vera ágæt hugmynd, enda hefur almennt verið tekið vel í hana, jafnvel af æðstu ráðamönnum. 

 

En ég sé ekki betur en þetta sé bæði arfavitlaus og undarleg hugmynd.  Hugmynd sem kemur fram eftir mesta eyðslufyllirí í sögu þjóðarinnar.  Þegar komið er að skuldadögum eftir að einstaklingar og fyrirtæki eru búin að lifa um efni fram í langan tíma og hafa fjármagnað eyðsluna og útþennsluna með ódýrum lánum og fyrirhyggjuleysi.

 

Hvaðan eiga peningarnir að koma?  Jú, þeir eiga að koma með skattlagningu, bæði á atvinnulífið og almenning.  Sérstaklega hefur verið nefnt auðlindagjald, en hvað þýðir það?  Auðvitað er það bara skattlagning, hvernig sem á það er litið.  Auðlindagjald á útgerðina er skattur á útgerð og fiskvinnslu, auðlindagjald t.d. á jarðhita og fallvötn er skattur á orkufyrirtækin, skattur sem fyrirtæki og almenningur greiðir þegar upp er staðið.

 

Og hvernig á svo að nota peningana og úthluta úr þessum sjóði?  Það verða auðvitað pólitíkusar og embættismenn sem það munu gera með allri þeirri hættu á mismunun, spillingu og sóun sem því getur fylgt. Aðgerð af sama toga var framkvæmd í kringum 1990 þegar skuldum útgerðar og fiskvinnslu var breytt í ríkstryggð skuldabréf, aðgerð sem að miklu leyti var sóun á stórum upphæðum af skattpeningum landsmanna. 

 

Ekki get ég séð þörfina fyrir svona sjóð og tel að Ríkissjóður og Seðlabanki eigi vel að geta stýrt sínum málum þannig að undirstöður fjármálakerfisins séu nægilega traustar.  Þó að Ríkissjóður hafi vissulega notað góðærið til að greiða upp sínar skuldir hefði hann getað gert miklu betur ef meira aðhalds hefði verið gætt og góðærið notað til að byggja upp sjóði.  Og það sama má segja um Seðlabanka, nú hefði hann betur átt drjúgan gjaldeyrissjóð.

 

Það er undarlegt að þessi hugmynd skuli sett fram af einum ríkasta manni þjóðarinnar og einum öflugasta forsvarsmanni einkaframtaks og einkavæðingar.  Er ekki bara verið að skapa möguleika á að velta taprekstri yfir á það opinbera, eftir að búið er að einkavæða gróðann?

 

Og svo er sérlega skondið að sjá viðbrögðin við þessari hugmynd.  Mogginn og aðrir fjölmiðlar innan fyrirtækjaveldis Björgólfs taka vel í hana en Fréttablaðið hefur eitt efasemdir.


www.bakpokinn.com, Dagur Jarðar og Bitruvirkjun

Í 24 Stundum í dag er fjallað um þessa netsíðu, en þar er mikið af góðum upplýsingum og tenglum fyrir fólk sem vill skipuleggja ferðalög, sérstaklega ef stefnt er á framandi slóðir.   Ung stúlka sem er illa haldin af ferðabakteríunni heldur úti þessari síðu, en hún er nú í ferðaþjónustunámi í Argentínu.  Flott framtak!

Og til hamningju með daginn, í dag 22. apríl er nefnilega "Dagur Jarðar"  (Earth Day) og hefur svo verið frá 1970.  Það veldur þó nokkrum ruglingi að tvær dagsetningar eru í gangi og Sameinuðu Þjóðirnar hafa líka útnefnt jafndægri á vori sem "Dag Jarðar".  Ekki er þó ágreiningur um þessa daga og vinna SÞ með skipuleggjendum dagsins í dag og styðja það framtak.  Viða er mikið gert á þessum degi og standa umhverfissamtök fyrir uppákomum um allan heim og er talið að meira en 500 milljónir manna taki þátt í ýmsum aðgerðum.  Ég hef ekki orðið var við neinar sérstakar aðgerðir hér á landi. 

Fróðleg umfjöllun var í Gufunni í morgun um Bitruvirkjun í framhaldi af fundi um hana í Hveragerði í gær.  Fram kom að Hvergerðingar eru almennt mjög uggandi en endanleg ákvörðun um framkvæmdir liggur ekki hjá þeim.  Vonandi tekst að stöðva þessi áform, nóg er að gert nú þegar. 

  


Gjábakkavegur og Dettifossvegur

Í blaðinu 24 stundir í dag er grein eftir Jóhann Jónsson, bónda að Mjóanesi.  Þar segir hann að mikill og óskiljanlegur áróður gegn þessum vegi virðist byggjast á miklum misskilningi.  Í greininni rekur hann í hverju sá misskilningur er fólginn og gerir það á mannamáli, sem ætti að vera flestum skiljanlegur.  Sem er meira en hægt er að segja um ýmislegt sem fram hefur komið gegn þessari þörfu og löngu tímabæru framkvæmd.

Dettifossvegur, þ.e. vegur meðfram Jökulsá að vestanverðu, virðist vera í svipaðri stöðu.  Þar hafa heimamenn endalaust rifist um hvar þessi vegur ætti að liggja og með þvi tafið framkvæmdir árum saman, en fjárveitingar hafa lengi legið fyrir.  Núverandi slóði er illfær þá fáu mánuði sem hann er opinn og nýr heilsársvegur er óskaplega mikilvægur fyrir ferðaþjónstuna.

Ég tel mig náttúruverndarsinna og er almennt ekki hlynntur vegalagningu í óbyggðum.  En þessi vegagerð sem hér um ræðir þurfa að komast til framkvæmda án frekari tafa.  Núverandi ástand er öllum Íslendingum til skammar, auk þess kostnaðar og óþæginda sem rekstraraðilar og ferðafólk verður fyrir.  


Ótrúlegt veðurfar - og Urriðafoss

Var með hóp af skólafólki austur í Mýrdal í gær og fyrradag.  Í fyrrinótt gerði óveður með mikilli ofankomu og var ekki ferðaveður um tíma í gærmorgun.  Þjóðveginum var haldið opnum en engin leið að komast niður í Reynisfjöru né út í Dyrhólaey.  Í samráði við Benna var afráðið að blása af ferð á Mýrdalsjökul og við héldum í vesturátt og stefndum á Byggðasafnið að Skógum.  Ferðin þessa fáu kílómetra sóttist seint, þæfingur á veginum og skyggni ekkert.  En við Jökulsá á Sólheimasandi skipti allt í einu algjörlega um; heiður himinn og sólskin og enginn snjór í byggð, vegurinn þurr og auður og hafði ekki einu sinni rignt!  Þetta var eins og galdur.  Og þannig hélst þetta meðan við vorum í Skógasafni, sá gamli lék við hvern sinn fingur og sjá mátti kólgubakkann nokkrum kílómetrum austar.

Á heimleiðinni litum við á Urriðafoss, sem var rosalega flottur, sjá meðfylgjandi mynd.  Þessi fallegi foss sýnir að stærðin skiptir ekki máli, hann er með þeim flottari!  Í guðanna bænum Landsvirkjunarmenn, látið hann í friði.

Urriðaf apríl 2008 006


Selir í Jökulsárlóni

CIMG1483Var við Lónið í vikunni og hef aldrei séð slíkan fjölda sela þar, líklega skiptu þeir hundruðum.  Sumir lágu í sólbaði á lagnaðarísnum en aðrir syntu og léku listir sínar fyrir áhugasama áhorfendur.  Þarna hlýtur að vera nóg æti, væntanlega síld eða loðna sem hefur álpast þarna inn.

Fávísir fjölmiðlamenn

Ég hlustaði með öðru eyranu á spurningakeppni fjölmiðlanna sem var á Rás 2 um páskana.  Mér blöskraði að heyra svör við spurningu um þorskkvóta á yfirstandandi fiskveiðiári.  Annað liðið giskaði á að kvótinn væri 50 þúsund tonn og hitt liðið að hann væri 250 þús.  Það rétta er að hann var ákveðinn 130 þúsund tonn en var 193 þús tonn á síðasta kvótaári.  Skerðingin er því 63 þús tonn og þegar haft er í huga að talið er að hver 10 þús tonn skapa um 3 milljarða í útflutningstekjur þýðir þessi skerðing að útflutningstekjur minnka um tæpa 20 milljarða.  Þetta hefði nú einhverntíma þótt fréttnæmt!  Eða er þetta bara dæmigert um áhuga almennings á okkar undirstöðu atvinnugrein?  Nógu margir virðast hinsvegar alltaf tilbúnir til að rífa kjaft og krítisera fiskveiðistjórnarkerfið, ráðgjöfina frá Hafró og allt í kringum þetta, án þess að vera með neinar raunhæfar tillögur til úrbóta.   

Páskamessa biskups

 

 Það voru mörg gullkornin sem hrutu af munni biskupsins okkar í hátíðamessunni að morgni páskadags.  Og hollt fyrir alla, trúaða jafnt sem trúleysingja, að kynna sér predikunina og hugleiða hana.  Predikunina má sjá í heild á www.tru.is undir flipanum “postillan” Krossinn – Páskarnir. 

Hér eru nokkrar tilvitnanir (beinar tilvitnanir í ræðu biskups eru skáletraðar):

Krossinn má víða sjá og er öflugt tákn, hvort sem það er á gröfum hinna látnu, í trúarlífi einstaklingsins eða siðvenju samfélagsins. Ung skáldkona, Gerður Kristný, er með lítið ljóð í ljóðabók sinni, Höggstaður, sem vísar til merkingar krossins á fremur kaldhæðinn hátt, það heitir, „Dánartilkynning trúlausa mannsins:“ „ Fyrir ofan myndina
ekki kyrrlátur kross,
heldur rós
eins og hann hafi trúað því
að eilíft líf biði hans
í blómabúð.“
Það er því miður alveg áreiðanlegt að trú er í sjálfu sér engin trygging fyrir siðgæði og sönnum dyggðum. Siðlausa og siðblinda menn er eins að finna meðal trúaðra og guðlausra. Allt mannlegt eðli hneigist til sjálfshyggju og eigingirni. Synd og glötun er staðreynd. Það á við um marga sem sagt var um mann: „Hann hafði hreina samvisku af því að hann notaði hana aldrei!“ Reiði og öfund, ágirnd, og eigingirni og aðrir lestir er öllum mönnum sameiginlegt - og öllum mönnum verkefni til að takast á við og yfirvinna. Trúin verður oft handbendi illra hvata, valdasýki og haturs, já, eins og líka stjórnmálin, já, og að ekki sé talað um kynhvötina, maður lifandi! Og vart getur mannlegt samfélag verið án alls þessa. Ástin, umhyggjan og trúin eru iðulega afskræmd og verða handbendi hins illa. En eru þó uppspretta þess sem best er og fegurst í lífinu sem okkur ber að rækta og greiða veg.

Stundum finnst mér að okkar lúterska kirkja sé ekki að ná til fólksins.  Þröngsýni, kreddur og innbyrðis deilur er það sem við okkur blasir og er það sem fólk tekur eftir.  En svona predikun er alveg þessi virði að staldra við og hugleiða hvað gefur lífinu gildi.  Ekki síst nú þegar verðbólgudraugurinn og kreppumóri hafa verið vaktir upp.


Hvenær verða menn gamlir?

 Er ekki svarið að þú ert orðinn gamall þegar þér finnst þú vera gamall?

 Var að lesa athyglisverða grein í NY Times um líkamlega hæfni og getu manna þegar þeir eldast.  Þar kom fram að hjá flestum er þetta frekar spurning um rétt hugarfar en líkamlega getu.  Hægt er að halda sér í fínu formi fram eftir öllum aldri og líkamleg geta fer ekki að hægja verulega á sér fyrr en eftir 75 ára aldur.  Helstu ástæður þess eru að það hægir á hjartslætti með aldri, um það bil 7 - 8 slög á hverjum tíu árum og það hefur þau áhrif að það flytur minna blóð og þar með súrefni og einnig minnkar hæfni lungnanna til súrefnisupptöku.

En vandamálið er fyrst og fremst huglægt og liggur í því að eftir því sem fólk eldist dregur það úr hreyfingu og líkamsrækt, oft vegna þess að það sér að árangur verður lakari en áður og þar með vantar örvun.  En það er í góðu lagi að þjálfa vel og oft þó menn eldist, best að taka vel á og alveg uppundir mjólkursýruþröskuld, alveg eins og þegar menn voru yngri.  Og það er hægt að byrja seint, í þessari grein voru nokkur dæmi um fólk sem hafði ekki byrjað að æfa, t.d. langhlaup, fyrr en á sjötugsaldri og hafð náð góðum árangri.

Og þarna sá ég auglýsingu um nýja aðferð til að grenna sig.  Ég held að það sem þarna er sett fram sé hárrétt, engir megrunarkúrar, engar æfingar, ekki forðast kolvetni, bara rétt mataræði og borða 6 sinnum á dag!  Ég þarf ekki á þessu að halda en þeir sem vilja kynna sér málið ættu að kíkja á www.fatloss4idiots.com


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband