Færsluflokkur: Bloggar

Eldsneytisverð

Umræðan um verð á bensíni og díselolíu er gjarnan sett þannig upp að þetta sé eitthvað séríslenskt fyrirbæri, en svo er ekki.  Ég er nýbúinn að keyra um mörg lönd í Evrópu og get staðfest að verðið hér er sambærilegt við það sem ég sá víðast hvar.  Norðurlöndin, Þýskaland, Belgía, Ítalía, Bretland eru með mjög svipað verð en þó er aðeins mismunandi hvort dísel er dýrara en bensín, en það er þó tilfellið í nokkrum löndum, t.d. Bretlandi.   Í Hollandi er eldsneytisverð hærra en hér, en tvö lönd sem ég heimsótti skáru sig úr og voru ódýrari, Luxemborg og Austurríki.  Svo er einnig með suður Evrópu, t. d. Spán og Grikkland.

Þegar litið er til lengri tíma minnir mig að þessi munur milli landa hafi verið svona lengi, t.d. Holland alltaf dýrast og Luxemborg var alltaf verulega ódýrara en nágrannalöndin.

Þannig að ríkið er alls staðar með puttana í þessu, en taka mismikið til sín.  Fróðlegt er líka að bera saman verð á bílum og álögur, þar erum við ekki verstir, sjáið t.d. verð á nýjum bílum í Danmörku.  En í svona samanburði er líka rétt að taka tillit til almenningssamgangna og þar erum við auðvitað aftast á merinni!

  


Home sweet home

04.03.08 Er í flugvélinni á leið heim frá Osló, eftir 6 góðar vikur á skíðum og flakki um nokkur helstu skíðasvæði Evrópu.   Stundum er sagt að það besta við ferðalög sé undirbúningurinn og heimkoman.  Dálítið til í því og mig hlakkar svo sannarlega til að koma heim, hitta fjölskyldu og vini, en ég vil bæta við þessa skilgreiningu að góð ferðalög skilja eftir góðar minningar og reynslu, víkka sjóndeildarhringinn og innsýn í menningu sem er önnur en okkar sérstæða íslenska menning.   Ég tek undir það sem Raggi sonur minn sagði í gærkvöld að það er nauðsynlegt að ferðast og maður sem ekki hefur löngun til að ferðast og kynnast menningu og staðháttum í öðrum löndum er eitthvað farinn að daprast, sbr. málsháttinn „heimskt er heimaalið barn“ Og nú er hægt að fara að velta fyrir sér hvert skal halda næst, það eru margir staðir á óskalistanum og hægt að skemmta sér við pælingar, skipulagningu og undirbúning.   Ég byrjaði nú á þessu bloggi til að auðvelda fjölskyldu og vinum að fylgjast með ferðum mínum og nú þarf ég að ákveða hvort ég held þessu áfram.   Kannski ég geri það og breyti aðeins um stíl, ætli ég fari ekki bara að tjá mig um ýmis dægurmál og pólitík, rífa kjaft og kvarta yfir ýmsu sem betur má fara eða reyna bara að skrifa gáfulega pistla um allt og ekkert – svona rétt eins og allir hinir bloggararnir.  En það kemur bara í ljós.Jónína benti mér á gestabókina, sem ég hafi ekki veitt eftirtekt.  Þar sá ég nokkrar kveðjur sem mér þótt vænt um að sjá og þakka þær hér með.Bestu kveðjur til bloggvinanna og allra hinna sem hafa kíkt á þetta.BR

Noregur

03.03.08Keyrði í morgun frá Sälen í Svíþjóð til Fredrikstad, um 100 km sunnan við Osló.  Ótrúleg breyting á ekki lengri  leið, ég fór úr miklu vetrarríki, 8 stiga frosti og miklum snjó, en hér við Oslófjörðinn er vorveður, 5 stiga hiti og þeir hafa ekki séð snjó hér í vetur.  Búinn að afhenda bílinn til afgreiðslu Eimskips í Fredrikstad og sit nú í lestinni á leið til Osló.  Frábær samgöngutæki þessar lestir, þetta er eins og að vera á business class í flugi, nóg pláss og hægt að láta fara vel um sig.Það er fallegt við Oslófjörðinn, þennan langa og vogskorna fjörð og reyndar finnst mér Noregur afskaplega fallegt land með fjölbreytilegu landslagi og veðurfari.   Var einu sinni í Hammerfest um miðjan maí og þar var enn mikill vetur, snjór og frost en sumarveður syðst.  Þetta langa og mjóa land hefur mótað íbúana og skapað mikla fjölbreytni í menningu og lífsviðhorfum.  Hér liggja rætur okkar og gaman að velta fyrir sér af hverju forfeður okkar yfirgáfu þetta gjöfula land.  En ástæðurnar eru svo sem þekktar, þeir vildu viðhalda sjálfstæði sínu og voru að flýja ráðríki og yfirgang Haraldar Hárfagra en auk þess er talið að skortur hafi verið á jarðnæði og þeir verið að skapa sér meira olnbogarými.  Kannski hefur einhver ævintýramennska líka ráðið ferðinni.    En ég aðhyllist þá kenningu að þeir sem fóru hafi verið þeir framtakssömu, kannski áhættufíklar og ævintýramenn og þeir hafi sett sitt mark á íslenska þjóð og gera enn.                                                                                                                                                                                                                                                                                                                   Ragnar sonur minn, sem býr í Madrid, er á leið til Osló og við hittumst þar á eftir og borðum saman.   Hann flýgur svo til baka eftir hádegi á morgun, en ég kem heim. BR

Þetta tókst.

Markmiðið var að vera innan við 9 klst og það tókst, tíminn var 8:50:38, tæpum klukkutíma betri tími en í fyrra.

Færið var reyndar erfitt, það snjóaði snemma morguns og hitinn var rétt um frostmark, fór uppfyrir um miðjan daginn. 

En rosaleg stemming og virkilega gaman að taka þátt í þessu.

Afhendi bílinn á morgun til Eimskip í Fredrikstad og flýg heim frá Osló á þriðjudag.

 BR


Spennan í hámarki....

Vasagangan byrjar í fyrramálið kl. 8.  Þetta er einn helsti íþróttaviðburður í Svíþjóð og tvær sjónvarpsrásir undirlagðar allan daginn.  Veður skiptir höfuðmáli og bestu aðstæður eru að hafa eitthvert frost og úrkomulaust.  En það er ekki útlit fyrir að svo verði.  Spáð er einhverri snjókomu, smá frosti í fyrramálið og að svo læðist hitinn uppfyrir frostmarkið seinnipartinn, en þá verða elítarnir komnir í mark en við hin sitjum í súpunni.  Allir vona þó að þetta verði ekki eins slæmt og í fyrra, sem var með allra versta móti, nokkurra stiga hiti og færið nánast krapi.

Það er mikið fjallað um þetta í fréttum, sagt frá undirbúningi, talað við starfsfólk og keppendur, sýndar myndir frá fyrri keppnum, spáð í vinningslíkur og svo videre.  Norðmenn hafa stundum stolið senunni hérna og greinilegt að Svíarnir eru ekkert of hrifnir af því.  Norðmenn mæta hér með hörkulið og nýja startegíu, sem þeir neita að upplýsa hver er, en ku vera byggð upp eins og í hjólreiðunum, undanfarar ryðja brautina fyrir toppmanninn eða mennina sem taka síðan við og klára dæmið.

Tímataka er sjálfvirk og hægt að fylgjast með hvernig hverjum og einum keppanda gengur á netinu, þ.e.a.s. tíminn á millistöðvunum 7 og endastöð birtast jafnóðum.

Ég fæ morgunmat hér á hótelinu kl. hálf fimm og þarf svo að keyra í átt að startinu, koma bílnum fyrir, sækja skíðin sem eru í slípun og áburðarmeðferð, koma mér svo fyrir í mínum ráshóp....... Er nema vona að maður sé aðeins stressaður!  

 


Hér er hægt að vasast í ýmsu...

Nú er ég kominn til Sälen, sem er í Dölunum hér í Svíþjóð.  Margir halda að Vasagangan sé hjá Vasa í Finnlandi en svo er ekki, heldur er gengið frá bænum Sälen til Mora, sem er 90 km leið.  Gangan heitir í höfuðið á einhverjum Gústaf Vasa svíakóngi sem var uppi á 16. öld og er saga á bak við það sem ég segi kannski seinna. 

Keyrði frá Oslo í morgun og stansaði góða stund í Hamar í Noregi og heimsótti kunningjafólk sem þar býr.  Á morgun verður farið og náð í keppnisgögn, aðstæður kannaðar og spjallað við íslensku kunningjana sem eru komnir á svæðið.  Það er mikið um að vera kringum þessa keppni sem er í raun margar keppnir sem byrjuðu um síðustu helgi, mismunandi vegalengdir og aðferðir sem enda svo í hinni klassísku Vasagöngu.

BR


Það gefur á bátinn.....

27.02.08Skrifa þetta um borð í Kaupmannahöfn – Osló ferjunni, að kvöldi dags.  Keyrði í gær frá Zillertal í Austurríki til Lübeck og var kominn þangað fyrir háttatíma, eftir um 9 klst akstur.  Fór þar inn á fyrsta hótel sem ég sá, ETAP, en það er keðja með yfir 300 budget hótelum í Evrópu.  Borgaði EUR 39.50 fyrir rúmgott herbergi með baði, fínni sturtu og þokkalegum morgunverði!  Allt mjög basic en góðu lagi ef maður ætlar bara að sofa eina nótt.  IKR 4.000.-!  Þetta vantar okkur heima,  conceptið er einfalt og allur kostnaður í lágmarki, en allt hreint og virkar vel.   Það var erfitt að yfirgefa vorið þarna suðurfrá, en eftir því sem norðar dró þykknaði upp og fór að rigna og hitastigið lækkaði.  Í Köben var 5 stiga hiti, rigning og svo mikið rok að víða mátti sjá fólk gangandi með hjólin sín.   Ótrúlegt að sjá hvað búið er að byggja upp á hafnarsvæðinu í Köben, þar er búið að gjörbreyta öllu – nema Nýhöfninni auðvitað -  og nýjar og glæsilegar byggingar þar sem áður voru vöruskemmur.   Eina umdeilda byggingin virðist vera nýja óperuhúsið sem hann gamli Mærsk rausnaðist til að gefa borginni.  Og sem við siglum út úr höfninni förum við gegnum vindmilliskóg sem vex upp úr sjónum.  Var einhver að tala um sjónmengun? En áfangastaður nú er Sälen í Svíþjóð, þar sem Vasagangan byrjar á sunnudaginn.  Helgi vinur minn Ingólfsson, sem er einn af yfirmönnum hjá DFDS, benti mér á að þetta væri sniðugur leikur, sparaði mér hótelherbergi á leiðinni og heilmikinn akstur.  Frá Osló er ekki nema um 3 klst akstur til Sälen.Ferjan er mikið og glæsilegt skip, enda eins gott því það er hífandi vestan rok og má búast við vondu sjólagi í nótt.  Hér er allskonar þjónusta í boði, fjölbreyttir matsölustaðir, barir, diskótek, næturklúbbar,bíó og verslanir, auk allskonar afþreyingar fyrir krakka.   Og auðvitað er hér internet- og símasamband.BR

Vorið er komið og grundirnar gróa........

24.02.08

Skrítið að vera á skíðum við þessar aðstæður! 

Ég heyrði í fréttum hér í útvarpinu að það hefði verið slegið hitamet víða í Austurríki í dag, hitinn fór t.d. yfir 20 stig í Innsbruck, sem er met í febrúar.  Ég var mættur í brekkurnar fyrir kl. 9 og skíðaði við frábærar aðstæður til hádegis, valdi mér brekkur undan sólu og fór ekki niðurfyrir 2000 metra og þá var þetta í fínu lagi.  En eftir hádegi var hitinn orðinn of mikill og færið slæmt, ekkert að gera nema sitja á útibörunum og njóta blíðunnar JÞorpin hér í Zillertal eru flest í um 600 metra hæð og úr þeim ganga kláfar eða gondólar upp í fjöllin.  Snjór er ekki að ráði nema ofan við 1500 metra hæð og því þarf að taka kláf niður úr fjallinu í lok dags.   Þetta er ólíkt því sem við eigum að venjast í Dólómítunum og víðar, þar sem þorpin eru mjög hátt og hægt að skíða heim á hótel.En aðeins um álmál.  Ég sá grein í Herald Tribune um daginn þar sem verið var að fjalla um samrunapælingar álfyrirtækja, sem ættu að vekja áhuga okkar.  Ef ég man rétt voru fréttir um það í haust að námufyrirtækið Rio Tinto, einhver alræmdasti umhverfissóði í bransanum, hefði keypt kanadíska álfyrirtækið Alcoa, sem á verksmiðjuna í Straumsvík.  En þessi frétt í HT var um það að Kínverski álrisinn Chinalco (þetta nafn minnir mig á vinsælan gosdrykk á mínum ungdómsárum sem var líka nothæfur í bland) og samstarfsfyrirtæki þeirra Alcoa, hefðu keypt nokkuð stóran hlut í Rio Tinto og væru jafnvel að spá í yfirtöku á RT.   Ef þetta gengur eftir lenda semsagt bæði Alcan og Alcoa í einni sæng!  En sjálfsagt skiptir þetta engu máli, það voru einhverjar pælingar í fyrra um að Rússneski álrisinn (Rusal eða hvað hann heitir) ætlaði að kaupa Alcan, Það breytir örugglega engu fyrir okkur hvort Rússar, Kínverjar eða Ameríkanar eiga þessar fabrikkur, þeir kaupa bara landið eins og það leggur sig ef við erum eitthvað að derra okkur!   Getum við ekki valið okkur einhverja huggulegri partnera í stóriðjuverkefnin?BR

Kominn til Austurríkis

í dag, laugardag, skíðaði ég til hádegis í Dólómítunum og keyrði svo í norðurátt, með óvissan ákvörðunarstað.  Fór gegnum Brennerskarð og framhjá Innsbruck og beygði inn í Zillertal.  Gekk um skíðabæinn Mayerhofen, í 15 stiga hita og vor í lofti.  Fann svo heimagistingu í smáþorpi, Zell am Ziller og ætla að svigskíðast hér í Zillerölpunum næstu daga.  Þetta er mjög stórt skíðasvæði, að mestu samtengt og hægt að komast í yfir 3000 metra hæð. 

Það er að verða heldur hlýtt fyrir skíðin, en maður verður bara að halda sig nógu hátt uppi!  Ég hef nú verið á ferðinni í rúman mánuð og hef fengið tvo sólarlausa daga.  Jafnvel heimamenn tala um að þetta sé óvenjulegt veðurfar, en fyrstu vikur ársins voru rysjóttar.

BR 

 


19.02.08 - Ekkert internet!

Er kominn á nýtt frábært gönguskíðasvæði hér í Dólómítunum. Lavazé (með áherslu á síðasta atkv.) uppi í fjöllunum fyrir ofan Cavalese, þar sem markið er í Marcialonga göngunni.  Þetta svæði er í ca. 1800 metra hæð og kynnt sem Nordic Ski center.  Tugir km af flottum göngubrautum, bæði fyrir classic og skautun.  Talvert mikið inni í skógi, sem hentar kannski ekki sólþyrstum íslendingum, en færið er fínt og spillist þá ekki af sólinni.

Veðrið er það sama, sól og blíða og ég er að verða búinn að gleyma hvernig ský líta út og rigning og rok er sem fjarlæg minning.

Í Lavazé eru 3 hótel, öll frekar frumstæð og ekkert internet.  Hótelið er alveg við göngubrautirnar og ég er hér í fullu fæði og greiði EUR 50 á dag! Var orðinn svo fréttaþyrstur að ég keyrði niður til Cavalese til að komast í samband og nota tækifærið og pára þetta í bloggið.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband