Færsluflokkur: Bloggar

Takk fyrir allar athugasemdirnar, gaman að heyra frá ykkur

Sama dásemdar veðrið hér og spáin fyrir næstu daga er eins.

Hér er fullt af fínum snjó

fjöllin við mér blasa

Húfutetur hálsklút þó

hef í mínum vasa.

 

Athugasemdir í bundnu máli eru vel þegnar!

 Flyt á laugardaginn yfir til Lavaze, í Val di Fiemme, að sögn frábært göngusvæði, og verð þar næstu viku.

 BR 


MARMOLADA - 12.02.08

Í dag, þriðjudag, fórum við svokallaðan „Sella Ronda“ hring, þar sem við ferðumst talsverða vegalengd, alltaf með nýjum lyftum inn á ný svæði og þar er hægt að taka ýmsa útúrdúra og reyna nýjar brekkur.  Þegar komið var til Arabba, sem er ca. á miðjum hringnum, var ákveðið að Jónína og Kristín myndu halda áfram Sella Ronda hringinn en við Trausti fórum í mjög skemmtilegan og krefjandi útúrdúr, upp á Marmolada jökulinn, í um 3.300 metra hæð.  Til að komast þarna upp er farið í nokkrar lyftur og svo í 3 kláfa, hvorn á eftir öðrum, sem taka um 80 manns hver.  Þessir kláfar eru ótrúleg mannvirki og hugvitsamlega útfærð. Fallhæðin niður í dalinn er um 2000 metrar.  Fórum svo inn á Sella Ronda hringinn aftur og vorum komnir heim á hótel um kl. 17.  Ekki mikill tími fyrir hádegismat, fengum  samloku um kl. 15 og náðum svo einum grappa í lokin.Enn er póstkortaveður, ekki ský á himni, hitastig rétt undir frostmarki og ekki hreyfir vind.  Og færið frábært.BR     

10.02.08

Í gærmorgun flutti ég frá Hotel Seiserhof í Seis am Schlern yfir til Hotel Continental í Selva, Valgardena, þar sem við ætlum að vera á svigskíðunum næstu viku.  Fór e.h. fyrir Úrval Útsýn með tvær rútur frá Selva til Brescia og fluttum svo fólk sem var að koma til Brescia upp til Selva í þessum sömu tveim rútum.   Allt gekk vel og flug voru nokkurn vegin á áætlun, þrátt fyrir óveður á Íslandi.  Aksturstíminn milli Selva og Brescia er um 3 klst., og var eitt pissu (eða pizzu-) stopp á leiðinni.  Vorum ekki komin til baka til Selva fyrr en um kl. eitt eftir miðnætti.  Meðal komufarþega var mín elskulega eiginkona og ágætu vinir Trausti Ingólfsson og kona hans Kristín.  Auk þeirra margir kunningjar og ættingjar sem gaman var að hitta. Við skíðuðum í dag í frábæru veðri yfir til Edelweiss, sem er fallegur og sólríkur dalur hér í nágrenninu.  Veðrið eins og best getur orðið, talsvert frost um nætur en þægilegt hitastig að deginum og mjög gott skíðafæri.  Hótel Continental er mjög flott og þar erum við í fjórréttuðum dinner á kvöldin.  Er gjörsamlega að springa núna og ætla að fara að sofa.  Þar sem konan verður hér þessa viku vil ég engu lofa um hvað ég verð duglegur að blogga næstu viku.BR

08.02.08 - flott dagsetning!

Enn einn dýrðardagur að kvöldi kominn.  Við erum dottin inn í enn eitt háþrýstisvæðið og ekki ský á himni, smávegis frost í fjallinu og frábært færi.Hótelið sem ég er á er stofnað 1909.  Myndir á veggjum sýna þróunina þessi 100 ár og alltaf hefur það verið í eigu sömu fjölskyldu.  Þannig hefur túrisminn verið lengi að þróast og byggjast upp hér.  Einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að eigendur skuldi bönkum ekki mikið, frekar að þeir eigi varasjóð til að mæta óvæntum áföllum.  Og fjölskyldan vinnur við fyrirtækið, sá gamli er mjög sýnilegur, ætli hann sé ekki þriðji eða fjórði ættliður!Svo eru lítil hótel og gistiheimili upp um allar hlíðar og koppagrundir.  Þegar grannt er skoðað eru þetta líka bændabýli sem virðast flest stunda kúabúskap í einhverjum mæli, auk þess sem hestar eru víðast hvar og eru þeir notaðir til að draga sleða sem frændur þeirra túrhestar sitja í og jafnframt er boðið upp á útreiðartúra allan ársins hring.  Gaman að sjá hvað hestarnir eru duglegir í snjónum, ýmist einn eða tveir fyrir hverjum sleða og klingjandi bjöllur gera kunnugt hverjir eru þar á ferð.  Eigum ótrúlega góða minningu sem aldrei gleymist frá svona sleðaferð fyrir mörgum árum, að kvöldi til í frosti og heiðskíru veðri, tunglskin og stjörnuhimininn ótrúlega tær og flottur. Skíðalyftur, strætórar og ýmis þjónusta fyrir skíðafólk er  í höndum sveitarfélaga sem oft hafa tekið höndum saman um að byggja upp aðstöðu.  Svæðið sem kallað er „Dolomita Superski“  er talið það stærsta samfellda í heimi sem þjónað er með einu og sama lyftukortinu og býður upp á um 1200 km af skíðabrekkum og 400 lyftur.  Veðurfar er með ólíkindum, yfir 300 sólardagar á ári og ef ekki snjóar þá er snjórinn bara búinn til.  Svæðin eru opin skíðafólki frá því í byrjun desember til  fyrri hluta apríl og eru engir fyrirvarar á því.  Ég hef ekki séð það bregðast þessi 15 ár sem ég hef komið hingað, þrátt fyrir hlýnandi veðurfar, sem hefur reyndar skapað þeim svæðum erfiðleika sem eru lægra sett (í eiginlegri merkingu). Þetta hafa verið góðir 11 dagar hér, ég hef farið á gönguskiði í 10 daga og gengið samtals tæpa 500 km við frábærar aðstæður.  Á morgun flyt ég yfir til Selva og sæki Jónínu, Stínu og Trausta á flugvöllunn í Brescia.  Við tekur vika á svigskíðum.BR       

Póstkortamyndir

Vildi bara sýna ykkur nokkrar myndir frá Alpe di Siusi, þessu frábæra svæði fyrir skíðagöngu.  Eins og sjá má eru tugir km af fínum sporum, bæði fyrir skautara og klassikera.  Ekki skemmir útsýnið.  Gönguleiðirnar eru frá 1800 m hæð upp í 2100 m og sumar talsvert erfiðar og svo frábært rennsli inn á milli.  Hitinn hefur verið frá -6 að morgni og um frostmark um miðjan daginn, þannig að hiti hefur ekki spillt færinu.

BRCIMG1447CIMG1450CIMG1451CIMG1448


Super Tuesday

Í dag er „Super Tuesday“ í Bandaríkjunum, þar sem getur ráðist hverjir verða í framboði til forseta í haust.  Eftir frammistöðu núverandi forseta tel ég allar líkur á að demókratar vinni þessar kosningar og eins og staðan er í dag eru allar líkur á að frambjóðandi demókrata verði annað hvort Obama eða Hillary.  Sem sagt:  Allar líkur á að næsti forseti Bandaríkjanna verði annað hvort blökkumaður eða kona!  Það yrði sko saga til næsta bæjar og kannski ekki öll von úti fyrir þessa annars ágætu þjóð, sem virðist vera að tapa sér í paranoju og sér óvini í hverju horni.En dagurinn er líka merkilegur fyrir það að þetta er fæðingardagur föður míns, sem fæddist árið 1911, en hann lést 2003. Það eru hlýjar tilfinningar sem minningin um hann kalla fram, sómamaður í alla staði, traustur og góður sem setti sjálfstæði sitt og annarra framar öllu.  Það þarf að fara að huga að ættarmóti árið 2011.Og þá er komið að því sem ég sagði í síðasta bloggi: „ Það er ákveðinn skyldleiki með þessu landslagi hér í Ölpunum og á Íslandi“.   Þó að jarðfræðilega sé mikill aldursmunur á Íslandi og Ölpum er það landslag sem við okkur blasir í dag á báðum stöðum álíka gamalt.  Landmótunin hér og það landslag sem við sjáum í dag hefur aðallega átt sér stað á tímum ísaldarinnar sem hófst fyrir um 3 milljónum ára, alveg eins og heima.  Jöklarnir hafa grafið dalina og sorfið tinda og fjallaskörð og vatnagangur á hlýskeiðum hefur sett sitt mark á landslagið og skapað þessa frjósömu og fallegu dalbotna.Í gær var snjókoma fyrrpart dags og ekki þetta venjulega póstkorta veður, en viðraði þó ágætlega til skíðaiðkana.  Í dag er eðlilegt veður, sól og blíða, nýfallinn snjór og túrhestarnir allir í essinu sínu.BR

03.02.08

Í gærmorgun, laugardag, var talsverð snjókoma hér, en létti til þegar leið á daginn.  Ég keyrði snemma yfir til Selva og var kominn þangað um kl. 8:30.  Það er mikil umferð á þessum slóðum á laugardögum, það eru skiptidagar en flest hótelin selja vikudvöl, frá laugardegi til laugardags.  Auk þess bætist við umferð fólks sem býr í nágrenninu og kemur hingað til að skreppa á skíði um helgar.  En ég fór til Selva til að aðstoða Einar og Önnu með transferið, þ.e. að koma fólki frá Selva á flugvöllinn í Veróna og flytja svo nýja hópa hingað uppeftir.  Það er um 2.5 klst akstur hvora leið, þegar engar tafir eru og ekkert er stoppað og gekk þetta allt vonum framar.  Það voru tvær rútur, um 75 manns til Veróna en 4 rútur til baka, um 150 manns og þar sem við Einar vorum bara tveir þurftum við að stoppa á leiðinni til baka og skiptum þá um rútur, þannig að við náðum að tala við alla.  Nú er farið að bjóða upp á að kaupa lyftukort í rútunum á leiðinni uppeftir og tekur sú afgreiðsla mikinn tíma og rétt svo að það hafist.  En sú þjónusta er vel séð þar sem þá þarf fólk ekki að standa i biðröð á sunnudagsmorgni til að kaupa lyftukort.  Þetta gekk nú allt þokkalega, við fórum af stað frá Selva upp úr kl. 9 og vorum komin til baka um kl. 8 um kvöldið.  Ég borðaði svo með Einari og Önnu og svo var farið í uppgjör og bókhald og ég var ekki kominn „heim“  til Seis am Schlern fyrr en um miðnætti.Það er mjög gaman að keyra héðan til Veróna.  Leiðin liggur niður á hraðbrautina sem liggur um Brennerskarðið og síðan í suðurátt, niður Val Adige dalinn, en vegurinn liggur með fram Adige ánni sem við sjáum breytast úr læk í þokkalega á og síðan á hún eftir að verða að talsverðu fljóti, þar sem hún rennur svo samsíða Pó fljótinu til sjávar í Adríahafið og saman mynda þær hina frægu og frjósömu Pósléttu.   Hrikalegt landslagið, þröng gil, snarbrattir hamraveggir, himinháir fjallstindar og frjósamir dalir eru endalaust augnakonfekt, þannig að engum þarf að leiðast á þessari leið.  En það er ákveðinn skyldleiki með þessu landslagi og því íslenska, hvað skyldi það vera?  Því verður  svarað í næsta bloggi.  Í dag, sunnudag, er svo frábært veður, logn og smávegis frost í fjallinu, fínt færi og nýfallinn snjór og sólin sýndi sig öðru hverju.  Ég var búinn að frétta af manni hér sem kynni að vaxa og bera á gönguskíði og skildi ég skíðin eftir hjá honum á föstudaginn og fékk þau í morgun, áætlega unnin. Ég var kominn upp í fjall um kl. 10 og náði að ganga 50 km til kl. 16 og fékk mér þó gúllassúpu og stóran bjór í hádeginu – en stóru bjórarnir hér eru ekki nema 0.4 ltr þannig að ekki kemur til greina að kaupa lítinn! BR  

Margt býr í þokunni......

01.02.08Í fyrradag var þoka í fjöllunum og öðru hverju mjög lítið skyggni.  Það truflaði mig þó ekki á gönguskíðunum en óneitanlega saknaði maður sólar og útsýnis.  Í gærkvöld fór ég yfir til Selva, það er rúmlega hálftíma keyrsla, og hitti þau ágætu hjón Einar Sigfússon og Önnu, sem verið hafa fararstjórar í skíðaferðum ÚÚ hér árum saman.  Í þokunni í fyrradag fóru þau með hóp af íslendingum til Val di Fiemme og þar skeði það, þegar Anna var að reyna að forða árekstri við barn sem skyndilega birtist í þokunni, að henni hlekktist á og þríbraut axlarlið.  Þetta reyndist þó ekki verra en svo að beinin hanga saman í réttum stöðum og hún þarf ekki að fara í aðgerð og verður ekki sett í gips.  En þarf að hafa hægt um sig til aðbyrja með og getur t.d. ekki sinnt flutningum á fólki sem er að fara og koma næsta laugardag, þ.e. á morgun.  Það varð úr að ég tók að mér að hlaupa í skarðið og aðstoða Einar við „transferið“ en það er um 3 tíma keyrsla milli flugvallarins í Verona og Selva og fer allur dagurinn í þetta.  Það er mikill fjöldi íslendinga hér á þessum tíma, tvær vélar á vegum ÚÚ koma hingað á hverjum laugardegi og auk þess kemur fjöldi fólks eftir öðrum leiðum.  Margir eru í meira en eina viku og skipta gjarnan um svæði.  Svo er fjöldi fólks að skíða í Austurríki, Frakklandi, Sviss og Bandaríkjunum þannig að það eru þúsundir íslendinga sem fara í svona frábær frí á hverjum vetri.  Það hefur aðeins kólnað og í gær var sólskin og frábært veður, skv spánni á eitthvað að þykkna upp næstu daga og gæti snjóað.BR

29.01.08

Í dag fór ég með kláfnum upp á hásléttuna Alpe di Siusi, paradís gönguskíðamanna.  Hún er í tæplega 2000 metra hæð og yfirleitt ágætur snjór og lagðar göngubrautir út um allt, hægt að velja um ýmsar vegalengdir og hæðarmun.   Ekki er mikið um skóga þarna uppi og stórkostlegt útsýnið óhindrað til allra átta.   Hægt að láta sér detta i hug að hásléttan sé útkulnuð eldfjalla askja, umkringd fjallstindum sem gætu verið gígbarmar, svipað og við höfum heima, t.d. í Öskju eða Öræfajökli.  En það er auðvitað ekki svo, Alparnir eru fellingafjöll sem hafa myndast þegar Ítalía var sjálfstætt rekbelti sem rak inn í meginland Evrópu og ýtti upp fjallgarðinum.  Með sama hætti mynduðust Himalaya fjöllin, þegar Indland,sem verið hafði á reki út á Indlandshafinu, tók upp á því að sameinast meginlandi Asíu og ýtti í þeim atgangi upp fjallgarðinum, hæstu tindum jarðar og þar með Everest.Það voru margir skandinavar í göngubrautinni í dag, flestir þreytulegir eftir Marcialonga á sunnudaginn og reyndu að ná úr sér harðsperrunum eins og ég – gekk ágætlega.  Tók því rólega í dag, gekk eitthvað um 30 km enda veðrið svo frábært, sólskin og hiti,  að það var erfitt að hreyfa sig.Ég elska ítalskan mat.  Var að ljúka við kvöldmatinn, fjórréttað og salathlaðborð að auki.  Frábær matreiðsla og hráefni fyrsta flokks.  Fyrir þetta borga ég, nú á háannatíma, um IKR 7000 á dag:  gott herbergi með svölum til suðurs, fínt morgunverðarhlaðborð og þennan himneska kvöldverð.   Veit ekki hvernig þeir reikna þetta en verðið án kvöldverðar er kr. 6000 og kvöldverðurinn – sem er optional - því verðlagður á 1000.-  Til samanburðar eru þokkaleg hótel heima á landsbyggðinni á annatíma á ca. 10 – 12.000 eins manns herbergi plús kvöldmatur ca. 3.500.  Sem sagt tvöfalt verð.Málefni sem vert er að skoða og ræða:  Af hverju er skíðaganga ekki vinsælli og meira stunduð á Íslandi en raun ber vitni?  Það eru miklu betri aðstæður til að stunda skíðagöngu heldur en svig í nágrenni Reykjavikur.Látum þetta duga í dag.BR    

Fréttir úr Dólómítunum

Nú lágu danir í því!  Síðustu þrjár bloggfærslur virðast hafa glatast, bara gufað upp.  Búinn að kann þetta hjá umsjónarmönnum MBL bloggsins og þeir hafa engar skýringar, ég virðist hafa gert allt rétt, ýtt á hnappinn „vista og birta“ Ég var búinn að segja ykkur margt fróðlegt og merkilegt.  T.d. af þessu svæði hér í S-Tyrol, en sýslan heitir Trentino, sem skiptist í Bolzano í norðri og Trento í suðri.  Bolzano liggur að Austurísku landamærunum og var þetta svæði áður hluti af austuríska keisaradæminu.  Flest staðanöfn eru bæði á þýsku og ítölsku og flestir tala einhverja þýsku.  En í Trento er allt orðið ítalskara og ekki gefið að fólk tali þýsku, að ekki sé talað um ensku.  Minnihlutahópur talar lókal mál, Ladins.  Áður fyrr voru fjallaþorpin mjög einangruð, þau eru niðri í dölunum í 1000 til 1500 metra hæð en fjöllin rísa upp í yfir 3000 metra.  Til að komast milli dala þarf að fara yfir fjallaskörð sem eru gjarnan í 2000 til 2500 metrum..   En Tentino er um 13.000 km2 og þar búa tæplega 1milljón manns, ég held að flestir lifi með einum eða öðrum hætti á túrisma og sýnist lifistandard vera býsna hár. Síðustu daga hef ég dvalið í litlu þorpi í Trento sem heitir Bellamonte – Fögrufjöll – og ber nafn með rentu.  Í gær tók ég svo þátt í skíðagöngukeppninni Marcialonga – gangan langa – 70 km og gekk mér ágætlega, var innan við 7 tíma, sem að var stefnt.  Það var mjög gaman að þessu, brautin liggur gegnum fjölmörg þorp og fólk var meðfram allri brautinni og hvatti göngumenn til dáða.  Allir hrópuðu „bravi, bravi“ sem hljómar eins og nafnið mitt, enda tók ég þetta allt til mín.  Hiti var reyndar allt of mikill, 6 – 8 stig yfir miðjan daginn og færið erfitt. Í dag færði ég mig svo yfir til staðar sem heitir Seis am Schlern, keyrði í gegnum Val Gardena, þar sem fjöldi íslendinga fer á skíði ár hvert.   Hringdi í Einar Sigfússon, sem ásamt sinni ágætu eiginkonu Önnu, hefur verið hér fararstjóri á vegum Úrvals-Útsýn árum saman.  Við stefnum að því að hittast eitthvert kvöldið á snæða saman.  Næstu daga ætla ég að vera á gönguskíðum uppi á hásléttunni Alpe di Siusi, sem er stærsta háslétta í Ölpunum og sögð vera paradís gönguskíðafólks.  Héðan úr þorpinu er gondóll upp á sléttuna, en takmarkanir eru á að keyra þangað upp og ekki mörg hótel þar uppi.Það hefur verið óvanalega hlýtt og vor í lofti, dásamlegt veður en kannski einum of hlýtt fyrir skíðamenn sem vilja fá vetrarfæri.  Fróðlegt að fylgjast með óhemjuganginum í veðrinu heima – og hægt að njóta þessara frábæru aðstæðna enn betur fyrir vikið.Vona þetta skili sér inn á bloggið.BR

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband