Ferðamálaþing

Sat Ferðamálaþing í dag og er allur uppveðraður eftir þessa uppákomu.  Framsögumenn voru forystumenn úr ferðamálageiranum, ráðherra ferðamála hr. Össur Skarphéðinsson og fleiri ráðamenn úr atvinnulífi og ferðamálum.  Að auki var forstöðumaður breskrar ferðaskrifstofu, Regent Travel og var mjög fróðlegt að hlusta á hann þar sem hann taldi að undanfarin neikvæð umræða um Ísland hefði einungis haft jákvæð áhrif á ferðaþjónustuna og væri ígildi milljóna punda í auglýsingafé í UK.

Samkvæmt framsögumönnum er bjart framundan í ferðamálum og um að gera að nýta sóknarfærin sem nú gefast.  Lítið var talað um vandamál þeirra skuldugu í greininni, þeim sem hafa tekið lán  í erlendum gjaldmiðlum og sjá nú ekki til lands, hvort sem lánin eru til uppbyggingar gistiaðstöðu eða kaupa á hópferðabílum eða súperjeppum.

Stefán Helgi Valsson bar fram fyrirspurn um löggildingu starfsheitis leiðsögumanna og kom fram að það mál er nú í vinnsu í ráðuneytinu.

Stjarna dagsins var Páll Ásgeir Ásgeirsson, hann flutti frábært erindi og hvatti til þess að við nýttum óþekktar náttúruperlur, sem engin veit um í dag. 

Ég þakka fyrir frábært ferðamálaþing. 

 

 


Home Sweet Home......

Vorum komin heim um kl. 9 á föstudagsmorgun og sváfum til hádegis.  Dásamlegt að komast í rúmið sitt aftur eftir harðar tjalddýnur eða alltof mjúk hótelrúm.

 Ferðalagið á þessar framandi slóðir var frábært í alla staði, allt stóðst eins og stafur á bók og ekki hefði verið hægt að óska sér betri ferðafélaga en þeirra Sigfúsar og Steingerðar, skemmtilegir, þægilegir og jákvæðir á hverju sem gekk. 

Mín beið verkefni sem ég hef verið að sinna um helgina, amerísk hjón með stálpaða stelpu, sem ég hef farið með um Reykjavík, Reykjanes og Gullhringinn.  Ágætis fólk og vel búið sem naut þess að vera úti og ganga um á Þingvöllum og við Gullfoss og Geysi, þrátt fyrir slyddu og hálf leiðinlegt veður.  Hver árstími á sínar góðu hliðar og það er ekki síður gott að njóta þess að vera úti á þessum einstöku stöðum að vetri til, þegar það er engin traffik og maður hefur staðina út af fyrir sig - ef maður er vel klæddur!

 


Lima, Peru

Við komum hingað með flugi frá Cuzco á mánudaginn og höfum verið að skoða borgina, sem hefur komið okkur skemmtilega á óvart.  Mikil borg með um 9 milljón íbúum, fjölbreytt mannlíf, umferðahnútar, flottar gamlar byggingar, falleg torg og frábær Kyrrahafsströndin með sjávarnið, brettaköppum og svifdrekum.  Ríkidæmi og fátækt, með miklum öfgum sem blasa víða við.

Lima, Perú 001Höfum líka farið á nokkur söfn og gallerí.  Larco Herrera museum er mjög fjölbreytt og flott, með miklu safni af gömlum gull og silfur munum frá Inca tímum og miklu eldra, allt upp í 2000 ára.  Svo er mikið safn af keramik munum og vefnaði og ekki má gleyma sérstöku erótísku safni, aðallega keramik munir sem sýnir fólk í allskonar erótískum stellingum og athöfnum en jafnframt eru munirnir nytjahlutir.

Sagan hefur komið okkur nokkuð á óvart hér, því nú rennur upp fyrir okkur að tími Inkanna var tiltölulega stuttur, ca. 1200 til 1530 en fyrir voru hér ýmsir merkilegir þjóðflokkar með fjölbreytta menningu og byggðu Inkarnir á þeim grunni og þekkingu sem fyrir var.  Inkarnir voru herskáir og lögðu undir sig marga aðra þjóðflokka þegar þeir byggðu upp sitt stóra ríki og litu margir þeirra þjóðflokka á Spánverjana sem frelsandi engla þegar þeir birtust á 16. öld - en hafa nú væntanlega margir verið fljótir að breyta því áliti.Lima, Perú 002

Gallerí og listabúðir eru margar og höfum við notið frábærrar leiðsagnar Matthildar Halldórsdóttur (í ELM) sem hér hefur búið lengi og er öllum hnútum kunnug.  Hún hefur líka kynnt okkur Límíska gastrónómíu, sem er á heimsmælikvarða.

Og nú er komið að ferðalokum, höldum heim í kvöld í gegnum NY og komum heim á föstudagsmorgun.

 


Myndir frá Inca trail

Hér koma nokkrar myndir frá Inca trail. Þetta var nú svoldið erfitt, t.d. var hækkun annan daginn úr 3.000 í 4.200 og þá var orðið lítið um súrefni.  Sváfum í tjöldum í 3 nætur og eina nóttina fórhitastigið niður fyrir frostmark - en allt var þetta þess virði.

Macchu Picchu 010

 

Macchu Picchu 005Macchu Picchu 008

Machu Piccu - hápunkturinn

Vorum að koma til byggða, stíggenglarnir fjórir, þreyttir, skítugir og rosalega góðir með sig eftir erfiða og ánægjulega fjögra daga tjaldferð.  Höfum ekki tíma fyrir mikið report núna en munum gera þessu betri skil við fyrsta tækifæri.  Látum því eftirfarandi vísur duga núna, sem urðu til í fjöllunum:

 Alveg klárt, ég engu lýg,
um það vitna tröllin,
að við gengum Inkastíg
upp og niður fjöllin.

Erum komin aftur heil
enginn limur snúinn,
örkuðum við Inkatrail,
orðum dáldið lúin.

 

 


Cuzco og Inkarnir

Byrja á að óska ykkur og heiminum öllum til hamingju með Obama.  Vonandi verður nú einhver breyting á í guðs útvalda ríki.

Komum hingað snemma í morgun með flugi frá Puno.  Á þessum slóðum kemur sólin upp kl. 5 og sest um kl. 17:30 og við höfum lagað okkur að siðum innfæddra og vöknum við sólaruppkomu og sofnum fyrir kl. 22.

Höfum skoðað borgina og nágrenni í dag og er hún mjög merkileg, enda gamla höfuðborg Inkanna, hér í 3.400 metra hæð.  Hér sér maður vel hvað Spánverjarnir hafa unnið ótrúleg skemmdarverk þegar þeir rændu hér og rupluðu, um og uppúr 1530.   En margt er þó eftir sem þeir náðu ekki að skemma og er stórkostlegt að sjá hvað verkkunnátta þeir hefur verið á háu stigi, sérstaklega í að byggja úr tilhöggnum steinblokkum, sem vega uppí á annað hundrað tonn og falla svo vel saman að ekki kemst flís á milli.

En Cuzo í dag er líka mjög áhugaverð borg með mörg hundruð ára gömlum byggingum og þröngum strætum, þar sem allt er í fullkomnu samræmi og ekki eyðilagt með áli og gleri.  Íbúafjöldi er um 400.000 og allt lítur mun betur út hér en í því hrjóstuga landslagi þar sem við höfum verið undanfarna daga.  Mjög fallegar byggingar, kirkjur og stór torg, grænir garðar og tré, aðallega ecalyptus.  Og fólkið virðist hafa það mun skár hérna, þó auðvitað sé mikil fátækt.

Og nú erum við að setja okkur í gírinn fyrir Inkastíginn, en gangan hefst í fyrramálið.  Laptoppinn verður í geymslu hér í Cuzco á meðan svo það mun ekki heyrast í okkur aftur fyrr en eftir helginu.

Þökkum vel fyrir allar kveðjurnar sem við höfum fengið á blogginu og biðjum fyrir bestu kveðjur heim.

 Ég er að skrifa þetta á hlaupum, hótel lobbíum og þannig svo þið fáið því miður engar myndir með núna.  Við höldum bara myndakvöld þegar heim er komið!

 


Sefeyjarnar á Titicaca

Í dag heimsóttum við sefeyjarnar, UROS, á Titicaca vatninu og sáum hvernig fólkið þar lifir.  Ótrúlegt að sjá þetta og lífsbaráttan ekki síður erfið en hjá þeim sem búa á fastalandinu.

Sagan segir að fólkið sem þarna býr hafi hafi upphaflega flúið undan Inkunum út á vatnið og búið til þessar eyjar, en fólkið mun hafa verið ættaðað frá Mongólíu.  Nú búa þarna um 2000 manns á um 50 eyjum.  Eyjarnar og húsin sem eru þarna, eru búnar til úr sefi sem vex í vatninu og þarf stöðugt að vera að endurnýja bæði eyjarnar og kofana.  Íbúarnir stinga sér naktir í kalt vatnið, kafa til botns og skera stór stykki úr rótum sefsins, sem mynda undirstöðu fyrir eyjarnar og svo nota þeir sefgrasið til að leggja ofan á undirstöðuna, allt að tveggja metra þykkt.  Og svo liggja eyjarnar fyrir stjóra til að þær reki ekki úr stað.  Þeir búa líka til báta úr sefgrasinu og endast þeir ekki meira en 6 - 12 mánuði.  Sefið er til margra hluta nytsamlegt og m.a. borða þeir ákveðna hluta þess og nota til lækninga.  Sefið heitir á máli heimamanna Totora.          

Fólkið hefur mest lifað af fiskveiðum en nú er talsverður fjöldi ferðamanna sem leggur leið sína þangað og hafa þeir af því nokkrar tekjur og selja þeim handverksmuni, vefnað og muni úr sefinu, margt mjög haglega gert.  Lífslíkur Uros fólksins er um 55 ár. 

Í gegnum tíðina hafa þeir lítið blandað blóði við fólkið á fastalandinu og hefur það haft í för með sér vissa úrkynjun.

Einnig fórum við til eyjarinnar Amantani, sem er venjuleg eyja og búa þar um 5000 manns.  Þar eru rústir frá tímum Inkanna. 

Það sem hefur komið okkur einna mest á óvart á þessum slóðum er hversu harðbýlt þetta er, lífsbaráttan hörð og fátækt mikil.  Sjaldgæft er að sjá einhver tæki notuð við landbúnaðinn, í besta falli eru notaðir uxar til plæginga og flutninga en mikið gert á eigin skrokki, eins tíðkast hefur frá örófi alda.

Á morgun höldum við til Cuzco og undirbúum okkur undir gönguna um Inkastíginn, sem hefst á fimmtudag.

Bestu kveðjur frá okkur öllum

 


Perú - Titicaca

Fórum frá La Paz í morgun og ókum til Capacabana, sem er í Bólivíu, rétt áður en komið er til Perú.  Sigldum út til eyjarinnar Ila del Sol, sem er í Titicaca vatninu, og skoðuðum þar ævagamlar rústir frá tímum Incanna.

Tókum svo rútu til Punó í Perú, um 2 klst akstur meðfram ströndum Titicaca stöðuvatnsins, sem er eitt það stærsta í heimi og hæsta skipgenga vatn veraldar, í um 3.800 m hæð.  Við erum nú í lok regntímans og allt er mjög hrjóstrugt og þurrt, nánast ekkert grænt að sjá og lítið um trjágróður.  En þó er ýmslegt ræktað á þessum slóðum og menn í óða önn að plægja og undirbúa akrana áður en fer að rigna.  Mest er ræktað af kartöflum, quinoa (sem eru einkonar lítil grjón) og smágerðum mais. Húsdýr eru lamadýr, alpaca, kindur, svín og nautgripir.  Og svo stunda menn auðvitað fiskveiðar í vatninu, sem ku vera mjög gjöfult.  Og svo eru blessaðir túristarnir sem hressa aðeins upp á tilveruna og afkomuna.

En lífið er greinilega mjög erfitt hér, húsakynni hrörleg og allt mjög frumstætt. Margir bændur eru án rafmagns og vélknúin tæki afar sjaldséð.  Kuldinn hlýtur að vera mönnum mjög erfiður á þessum slóðum, hiti fer oft niðurfyrir frostmark að nóttu til og húshitun tíðkast ekki.

Strax eftir komuna til Puno fórum við í ferð út til Sillustani, þar sem eru afar áhugaverð grafhýsi frá því um 200 árum fyrir krist, byggð af indíánum, sem voru hér áður en Inkarnir komu.  Þetta eru mikil mannvirki byggð úr tilhöggnum steini og standa mörg upp enn. 

Erum svo hér á ágætu hóteli við vatnið og förum á morgun í siglungu út í sefeyjarnar og verður meira sagt frá því í næsta pistli.

La Paz 001

Læt fylgja hér með mynd sem ég tók í gær í La Paz og var í vandræðum með að koma inn í gær. 

 


Bólivía

Komum til La Paz í Bólivíu í gærkvöld, eftir millilendingu í Santa Cruz, en þar tók á móti okkur íslensk kona sem býr í Bólivíu, Fjóla Björnsdóttir, sem tók að sér að vera leiðsögumaður okkar í La Paz í dag.  Fjóla hefur búið í La Paz í mörg ár en býr núna ásamt fjölskyldu sinni nálægt Santa Cruz, þar sem þau eiga landareign og eru með búskap.Dagurinn með Fjólu var mjög áhugaverður og var ómetanlegt að njóta hennar góðu leiðsagnar og innbyrða margvíslegan fróðleik um sögu lands og þjóðar og núverandi ástand í landinu.   Landið er mjög fjöldbreytt, alls um 1 milljón ferkílómetrar, regnskógar, háslétta og fjallgarður sem teygir sig upp í yfir 6000 metra.  Og þjóðin er að 2/3 indíánar og afkomendur þeirra, en 1/3 eru afkomendur evrópubúa, aðallega Spánverja.  Og forsetinn, Morales er af indíánaættum.  Landið er auðugt af ýmsum málmum, silfri og gulli, jarðgas finnst í miklu magni, hlutar landsins eru vel fallnir til búskapar og það er mjög áhugavert fyrir ferðamenn, bæði vegna fjölbreyttrar náttúru og áhugaverðrar sögu.En við vörðum deginum í að skoða La Paz og nágrenni en borgin er hæsta höfuðborg í heimi, í um 3.600 metra hæð og hlutar hennar teygja sig reyndar upp í yfir 4000 metra og þar er t.d. flugvöllurinn.  Landslagið er hrikalegt og fagurt, en hrjóstrugt og borgin mjög sérstæð, byggð í dal og fjallshlíðum.  Mjög lítill gróður er í og við borgina og mjög fá opin svæði.  Skipulag kaótískt og húsagerðir fjölbreyttar, allt frá glæsilegum byggingum í nýlendustíl til fátæklegra hreysa.  Mannlíf og manngerðir sömuleiðis mjög fjölbreyttar en mest ber á indíánum, dökkum og lágvöxnum og vegna þunna loftsins hafa þeir þróast þannig að brjóstkassinn er fyrirferðarmikill.   Klæðnaður yfirleitt efnismikill og litskrúðugur, konurnar með sérkennilega kúluhatta sem tyllt er á höfuðið og þær eru í miklum fellingarpilsum.  Íbúar eru milli 1.5 og 2 milljónir og fer ört fjölgandi en heildaríbúafjöldi landsins er um 9 milljónir.Miklar rústir frá Inkatímanum eru í nágrenni La Paz en fáir ferðamenn koma þangað og er það að mestu vegna þess að Perúmenn hafa verið duglegri að koma sínum rústum á framfæri og flestir fara þangað.  Og þangað er ferð okkar nú heitið.  Á morgun förum við til Copacabana og Ila del Sol, sem er eyja í Titicaca vatninu og síðan til Puno í Peru, þar sem við gistum aðra nótt.Meira seinna.   

Nautakjöt og tangó

cimg3070.jpg
Þá er komið að því að kveðja Argentínu eftir 10 dásamlega daga. Veðrið hefur verið frábært, vor eins og þau gerast best, hitinn þægilegur og sól upp á hvern dag, nema þennan eina dag upp við Iguazu.

Hvað dettur manni í hug þegar minnst er á Argentínu? Nautakjöt og tangó, held ég að flestir myndu svara. Og við höfum fengið okkar skammt af hvoru tveggja, nautakjöt sem bráðnar í munni og kostar sáralítið og tangóinn sem
hljómar hvar sem komið er, oft dapurlegur en jafnframt ástríðufullur og seiðandi og stundum ærslafenginn. Alltaf taktfastur og dansaður með miklum tilþrifum og þokka.

En Argentína er þó svo miklu meira en nautakjöt og tangó. Afar stórt og fjölbreytt land sem teygir sig frá hitabeltisskógum í norðri til skriðjökla Patagóníu í suðri, strendur Atlantshafsins í austri og snævikrýndur Andes fjallgarðurinn í vestri. Víðáttumiklar sléttur og vatnsmikil fljót og fjölbreytt mannlíf, að mestu afkomendur spánsku landnemanna og indíánanna sem hér voru fyrir. Mikil auðlegð og ömurleg fátækt og allt þar á milli. Buenos Aires er alþjóðleg stórborg með iðandi mannlíf, sem hefur verið mjög gaman að kynnast.
cimg3074.jpg
Og nú kveðjum við Argentínu og höldum á vit nýrra ævintýra upp á hásléttunni í Bolivíu og Perú. Meira við fyrsta tækifæri og bestu kveðjur til allra frá Jónínu og Braga, Sigfúsi og Steingerði.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband